Sjálfbærni
LOGOS lítur á það sem samfélagslega ábyrgð sína að miðla þeirri þekkingu sem félagið öðlast við rannsóknir og vinnu á þessu sviði.
LOGOS býr yfir viðamikilli þekkingu á sjálfbærum fjárfestingum, reglum um upplýsingagjöf á sviði sjálfbærni, stjórnunarháttum fyrirtækja og samfélagslegri ábyrgð, sem og öðrum þáttum UFS (e. ESG). LOGOS getur veitt viðskiptavinum sínum alhliða þjónustu sem samræmist nýjustu viðmiðum um sjálfbærni hverju sinni.
Lögmenn LOGOS búa yfir sérþekkingu og reynslu af ráðgjöf á þessu sviði.
Meðal verkefna þeirra má nefna:
- aðstoð við hlítingu við lög og reglur tengdar sjálfbærni
- aðstoð við upplýsingagjöf fyrirtækja og fjármálafyrirtækja á sviði sjálfbærni
- aðstoð við flokkun starfsemi fyrirtækja m.t.t. taxonomy flokkunar (flokkunarkerfið/taxonomy reglugerð ESB)
- uppsetning lögbundinna og ólögbundinna innri stefna og reglna
- ráðgjöf og aðstoð við græna fjármögnun
- úttekt og uppfærsla á stjórnarháttum
- úrlausn álitamála á sviði umhverfisréttar
- aðstoð við mat á umhverfisáhrifum, og
- heildræn ráðgjöf á sviði sjálfbærni á grundvelli víðtækrar reynslu og þekkingar í atvinnulífinu
LOGOS lítur á það sem samfélagslega ábyrgð sína að miðla þeirri þekkingu sem félagið öðlast við rannsóknir og vinnu á þessu sviði. Hér fyrir neðan má finna hagnýtan fróðleik um sjálfbær fjármál og annað tengt sjálfbærni sem sérfræðingar LOGOS hafa tekið saman.
Aðgerðaáætlun ESB
Framkvæmdastjórn ESB birti aðgerðaáætlun á sviði sjálfbærra fjárfestinga á fyrri hluta árs 2018 og útlistaði þar þær aðgerðir sem sambandið hyggst hrinda í framkvæmd í því skyni að stýra flæði fjármagns í átt til sjálfbærra lausna. Hugmyndin er sú að gera endurbætur á fjármálakerfinu svo það geti orðið hluti af lausninni, ekki þrándur í götu við mótun græns og sjálfbærs hagkerfis. Á grundvelli aðgerðaáætlunarinnar setti ESB þrjár reglugerðir sem hafa áhrif á Íslandi, reglugerð (ESB) 2019/2088 um sjálfbæra upplýsingagjöf á sviði fjármálaþjónustu, reglugerð (ESB) 2019/2089 um sjálfbærar viðmiðanir og reglugerð (ESB) 2020/852 um samræmdan ramma fyrir sjálfbærar fjárfestingar (flokkunarkerfi ESB). Frekari upplýsingar má finna í grein eftir Helgu Melkorku Óttarsdóttur og Arnar Svein Harðarson, titluð Fjármögnun sjálfbærs samfélags.
Flokkunarkerfið
Reglugerð (ESB) 2020/852 um samræmdan ramma fyrir sjálfbærar fjárfestingar setur á stofn samræmt flokkunarkerfi sem gerir það mögulegt að flokka atvinnustarfsemi eftir því hvort hún er umhverfissjálfbær eða ekki. Með því að samræma skilning fjárfesta á hugtakinu umhverfissjálfbær atvinnustarfsemi auðveldar reglugerðin samanburð á milli sjálfbærra fjárfestinga og eflir traust fjárfesta á þeim fjárfestingum sem sagðar eru vera grænar. Flokkunarkerfið mun sömuleiðis sporna við „grænþvotti“, þ.e. koma í veg fyrir að fjárfestingar verði markaðssettar sem grænar án þess að vera það í raun. Kerfið skapar grundvöll sem aðgerðir og stjórntæki sambandsins, aðildarríkja þess og EFTA-ríkjanna eiga að byggja á. Þannig munu t.d. staðlar ESB fyrir græn skuldabréf og nýtt umhverfismerki ESB fyrir fjármálaafurðir byggja á flokkunarkerfi reglugerðarinnar.
Reglugerðin hefur verið innleidd í lög hér á landi sem tóku gildi þann 1. júní 2023.
Frekari upplýsingar má finna í greinum eftir Helgu Melkorku Óttarsdóttur og Arnar Svein Harðarson, titlaðar Umhverfið og fjárfestingar í eina sæng og Hryggjarstykki græna hagkerfisins.
Upplýsingagjöf tengd sjálfbærni
Undir lok árs 2019 birti Evrópusambandið reglugerð (ESB) 2019/2088 um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu (e. on Sustainability-related Disclosures in the Financial Services Sector eða SFDR). ESB telur nauðsynlegt að auka aðgengi fjárfesta að áreiðanlegum, skipulegum og nákvæmum upplýsingum tengdum sjálfbærni fjárfestinga, sem auðveldi þeim að ráðstafa fjármagni sínu til fjárfestingaafurða sem hafa jákvæð áhrif á umhverfið og félagsleg málefni. Í stuttu máli krefur reglugerðin tiltekin félög á fjármálamörkuðum um að huga að sjálfbærni og upplýsa fjárfesta um hvort, og þá hvernig, tekið er tillit til slíkra atriða við töku ákvarðana um fjárfestingar. Ýmis félög gætu þurft að endurskoða rekstrarhætti sína og innri ferla svo þau geti yfirhöfuð fullnægt upplýsingaskyldunni.
Reglugerðin hefur verið innleidd í lög hér á landi sem tóku gildi þann 1. júní 2023.
Frekari upplýsingar má finna í grein eftir Helgu Melkorku Óttarsdóttur og Arnar Svein Harðarson, titluð Baráttan gegn grænni upplýsingaóreiðu á fjármálamörkuðum.
Græn skuldabréf
Nýr staðall ESB fyrir græn skuldabréf er þáttur í átaki sambandsins í að fjármagna kolefnishlutleysi álfunnar fyrir árið 2050. Staðallinn verður sá fyrsti sinnar tegundar innan regluverks ESB en byggir að hluta til á meginreglum alþjóðlegra samtaka aðila á verðbréfamarkaði (e. International Capital Market Association eða ICMA) um græn skuldabréf (e. Green Bond Principles). Staðall ESB er að mörgu leyti svipaður og meginreglur ICMA, en gengur lengra í þeim kröfum sem gerðar eru til útgefenda. Staðallinn er ekki bindandi og útgefendum skuldabréfa frjálst hvort þeir nota hann. Aftur á móti er óheimilt að kalla fjármálaafurð evrópskt grænt skuldabréf (e. European Green Bond) nema hún fullnægi skilyrðum staðalsins.
Frekari upplýsingar má finna í grein eftir Helgu Melkorku Óttarsdóttur og Arnar Svein Harðarson, titluð Stöðlun grænna skuldabréfa.
Sjálfbærir stjórnarhættir
Í hugmyndinni um sjálfbæra stjórnarhætti fyrirtækja felst meðal annars að gefa stjórnendum tæki og tól til að leggja áherslu á heilbrigða þróun félaga til lengri tíma í stað þess að þurfa sífellt að skila inn sem allra mestum skammtímahagnaði, sem getur haft slæm innri áhrif, þ.e. á félagið sem um ræðir, jafnt og neikvæð ytri áhrif á umhverfið og samfélagið í heild. ESB hefur lagt fram nokkuð framsæknar tillögur á sviði sjálfbærra stjórnarhátta.
Frekari upplýsingar má finna í grein eftir Helgu Melkorku Óttarsdóttur og Arnar Svein Harðarson, titluð Sjálfbærni og hámörkun hagnaðar.