Hvernig viðskiptavini ert þú aðallega að þjónusta?
„Allajafna þjónusta ég meðalstór og stór fyrirtæki, á öllum sviðum atvinnulífsins, en einnig stofnanir ríkisins, sveitarfélög og háskóla. Eðli málsins samkvæmt þurfa allir að framfylgja kröfum persónuverndarlaga, hvort sem við erum að tala um einyrkja og lítil félagasamtök eða stór alþjóðleg fyrirtæki, og þessi fjölbreytileiki er stór hluti af því sem gerir þetta svið svona áhugavert.Í hugverkaréttinum eru viðskiptavinir mínir mikið til framleiðendur, hugbúnaðar- og upplýsingatæknifyrirtæki. Þá aðstoða ég við gerð leyfissamninga og skilmála og er í hagsmunagæslu fyrir framleiðendur, höfunda, rétthafasamtök og fleiri.“
Sífellt ný álitaefni
Áslaug segir tímabilið 2017 og 18 hafa verið eftirminnilegt, þegar ný persónuverndarlög tóku gildi. „Afar fá fyrirtæki og stofnanir á Íslandi höfðu búið sig undir nýjar skyldur sem lögin höfðu í för með sér. Í kjölfarið var mikið fjallað um nýjar sektarheimildir Persónuverndar, sem fyrirtæki og stofnanir gátu átt yfir höfði sér í tilviki vanefnda. Því varð algjör sprengja í þessum málaflokki. Dagarnir voru vel pakkaðir frá morgni til kvölds við að sinna ráðgjöf til fjölbreytts hóps fyrirtækja og stofnana. Á sama tíma hélt ég fjölda fyrirlestra og fræðsluerinda og kenndi einnig hjá Lögmannafélaginu og í háskólanum. Dagarnir voru því oft ansi langir hjá mér, en svona tímabil skilja mikið eftir sig. Ég leyfi mér líka að fullyrða að persónuverndarteymið á LOGOS hefur verið leiðandi á þessu sviði, að aðstoða fyrirtæki og stofnanir við innleiðingu á lögunum og tengdri ráðgjöf.Jafnvel þó flest fyrirtæki og stofnanir séu langt komin í innleiðingarvinnu er ekkert lát á persónuverndartengdum verkefnum, eðli þeirra einfaldlega breytist. Við erum þannig að ráðleggja fyrirtækjum í tengslum við öryggisbresti, sinna fræðslu, ganga frá vinnslusamningum og sinna hagsmunagæslu gagnvart eftirlitsstjórnvaldinu. Það er spennandi að starfa á réttarsviði sem er svona tiltölulega ungt og í mikilli þróun og maður er sífellt að taka á nýjum álitaefnum.“
Grænni áherslur varða alla, líka fyrirtæki
Helga Melkorka Óttarsdóttir, eigandi og formaður stjórnar hjá LOGOS, segir að verkefni tengd sjálfbærni séu henni hugleikin og að LOGOS leggi mikla áherslu á þann málaflokk.Helga hefur starfað í rúm 20 ár hjá LOGOS. Áður starfaði hún hjá Eftirlitsstofnun EFTA í Brussel frá útskrift úr framhaldsnámi. „Síðan hefur minn fókus mikið verið á samkeppnisrétt, Evrópurétt og ýmis tengd verkefni okkar viðskiptavina á hverjum tíma á fleiri sviðum. Þetta eru fjölbreytt úrlausnarefni: samningagerð, stjórnsýslumál og dómsmál fyrir héraðsdómi, Landsrétti og Hæstarétti hér á landi. Einnig hef ég flutt mál fyrir EFTA-dómstólnum og rekið mál fyrir Mannréttindadómstól Evrópu,“ segir Helga.
Mikil og hröð aukning í verkefnum á sviði sjálfbærni
„Umræðan um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð hefur verið áberandi. Innanhúss vinnum við öflugt og fjölbreytt starf með sjálfbærni að leiðarljósi. Við höfum sett okkur sjálfbærnistefnu þar sem við vinnum að markmiðum okkar á því sviði. Lögmenn stofunnar búa yfir sérþekkingu á þessu sviði og höfum við í auknu mæli veitt viðskiptavinum alhliða þjónustu sem samræmist nýjustu viðmiðum um sjálfbærni hverju sinni. Upp á síðkastið höfum við svo verið að útvíkka þetta þjónustusvið hjá okkur í takt við fjölda og fjölbreytni verkefna á sviðinu.“Verkefni á sviði sjálfbærni eru að sögn Helgu enn eitt dæmið um getu stofunnar til að uppfylla framtíðarþarfir viðskiptavina. „Markmið LOGOS er að koma að málum snemma og aðstoða viðskiptavini við fylgni við lög frá upphafi, og reyna þannig að koma í veg fyrir að vandamál komi upp. Það getur verið býsna flókið að þekkja og fylgja öllum lögum og reglum sem eru gildandi á hverjum tíma enda er regluverkið nú mun flóknara en áður var. Við höfum boðið upp á fræðslu á ýmsum réttarsviðum sem mörg fyrirtæki nýta sér.“
Nýtt regluverk ESB
„Innan Evrópusambandsins hefur orðið mikil þróun í regluverki á sviði sjálfbærni. Nýlega var samþykkt flokkunarreglugerð sem er upphafið að nýrri sýn í fjárfestingum. Kerfið byggir á samræmdum skilgreiningum um umhverfissjálfbæra atvinnustarfsemi. Þá er lögð skylda á tiltekin fyrirtæki að veita upplýsingar um stöðu sína á því sviði. Ekki er hægt að kalla fjárfestingu eða starfsemi græna nema hún uppfylli tiltekin skilyrði þar að lútandi og stuðli að tilteknum markmiðum í þágu umhverfisins.Ég fann snemma að mig langaði að koma inn í mál fyrirtækja fyrr, áður en þau urðu að málum til rannsóknar. Maður sér ýmislegt eftir á sem hefði mátt gera öðruvísi þegar maður kemur seint inn í mál. Með fræðslu og lagfæringu ýmissa ferla má stuðla að því að starfsemi fylgi lögum og koma í veg fyrir vanda sem ella hefði geta komið upp. Þegar regluverk ESB fór að þróast í átt að frekari sjálfbærni vaknaði enn meiri áhugi á sjálfbærnimálum fyrirtækja.Fjárfestar sem vilja láta sig sjálfbærni varða geta nýtt flokkunarkerfið til að skera úr um virði fjárfestinga í fyrirtækjum, þá hvort starfsemi fyrirtækja teljist umhverfissjálfbær. Við höfum unnið verkefni fyrir viðskiptavini sem vilja átta sig á betur á regluverkinu og kynna sér hve mikil losun má vera hjá fyrirtæki svo starfsemi teljist umhverfissjálfbær.Einnig aðstoðum við fyrirtæki við að setja upp innri stefnur og reglur á sviði sjálfbærni. Þar má nefna verkefni í grænni fjármögnun, úttekt á umhverfisverkefnum og heildræna ráðgjöf. Þarna nýtum við okkar þekkingu og reynslu og heimfærum á nýtt svið.Það er augljóst að fjárfestar eru áhugasamir um að vita hvort fjárfestingar sem þeir vilja koma að séu raunverulega grænar og sjálfbærar. Nú er verið að búa til sameiginlega skilgreiningu á því hvað telst sjálfbært og grænt. Áður gat ýmislegt fallið undir það án þess að að baki lægi samræmd skilgreining. Þá er áhugavert hvernig sjálfbærnimálefni tengjast fjölmörgum öðrum sviðum, eins og orkumálefnum og fjármögnun, en á þeim sviðum vinnum við fjölmörg verkefni.“
Jafnvægi
Kynjahlutföll starfsfólks LOGOS eru nokkuð jöfn að sögn Helgu. „Hér starfa ívið fleiri konur þegar allt er tekið. Við leggjum mikla áherslu á jafnrétti kynjanna í ráðningu starfsfólks, þó jafnvægi hafi ekki enn verið náð á meðal eigenda stofunnar. Af þeim fjórum eigendum sem bættust við nýlega voru tveir karlar og tvær konur. Viðskiptavinir eru farnir að skoða kynjahlutfallið í auknum mæli. Þetta skiptir því máli hvernig fyrirtækið virkar út á við. Uppbyggingin á okkar félagsskap er sú að við erum öll jöfn eigendurnir, sem býr til annan kúltúr og meiri slagkraft í hópnum.“