Nýverið samþykkti Alþingi lög sem koma á fót umgjörð utan um grænar fjárfestingar. Lögin, sem bera nafnið lög um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar, setja reglur um flokkunarkerfi (e. Taxonomy) og upplýsingagjöf um sjálfbærar fjárfestingar. Nýju lögin, sem taka gildi þann 1. júní nk., innleiða tvær grundvallarreglugerðir ESB á sviði sjálfbærra fjármála. Lögin marka tímamót, enda er um að ræða fyrsta skrefið í lögfestingu löggjafar á þessu sviði. Greint verður frá helstu efnisatriðum regluverksins í þessu fréttabréfi.
Flokkunarkerfi sjálfbærra fjárfestinga
Reglugerð (ESB) 2020/852 um samræmdan ramma fyrir sjálfbærar fjárfestingar setur á stofn samræmt flokkunarkerfi sem gerir það mögulegt að flokka atvinnustarfsemi eftir því hvort hún er umhverfissjálfbær eða ekki. Með því að samræma skilning fjárfesta á hugtakinu umhverfissjálfbær atvinnustarfsemi auðveldar reglugerðin samanburð á milli sjálfbærra fjárfestinga og eflir traust fjárfesta á þeim fjárfestingum sem sagðar eru vera grænar. Flokkunarkerfið mun sömuleiðis sporna við „grænþvotti“, þ.e. koma í veg fyrir að fjárfestingar verði markaðssettar sem grænar án þess að vera það í raun. Kerfið skapar grundvöll sem aðgerðir og stjórntæki sambandsins, aðildarríkja þess og EFTA-ríkjanna eiga að byggja á. Þannig munu t.d. staðlar ESB fyrir græn skuldabréf byggja á flokkunarkerfi reglugerðarinnar.
Upplýsingagjöf tengd sjálfbærni
Reglugerð (ESB) 2019/2088 um upplýsingagjöf tengda sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu (e. on Sustainability-related Disclosures in the Financial Services Sector eða SFDR) innleiðir skyldur á tiltekna aðila á fjármálamarkaði til að upplýsa um sjálfbærniþætti fjárfestinga. Þannig er aðgengi fjárfesta að áreiðanlegum, skipulegum og nákvæmum upplýsingum tengdum sjálfbærni fjárfestinga aukið, sem auðveldar þeim að ráðstafa fjármagni sínu til fjárfestingaafurða sem hafa jákvæð áhrif á umhverfið og félagsleg málefni. Í stuttu máli krefur reglugerðin tiltekin félög á fjármálamörkuðum að huga að sjálfbærni og upplýsa fjárfesta um hvort, og þá hvernig, tekið er tillit til slíkra atriða við töku ákvarðana um fjárfestingar. Ýmis félög gætu þurft að endurskoða rekstrarhætti sína og innri ferla svo þau fullnægi upplýsingaskyldunni.
Þá innleiða lögin breytingar á reglum um fjárfestavernd í MiFID-regluverkinu. Á meðal breytinga eru reglur sem skylda fjármálafyrirtæki til að taka tillit til óska viðskiptavina sinna um sjálfbærni áður en fjárfestingarákvarðanir eru teknar eða fjárfestingarráðgjöf er veitt.
Hjá LOGOS starfa sérfræðingar sem veita ráðgjöf á sviði sjálfbærnilöggjafar, s.s. með ráðgjöf um helstu efnisþætti reglnanna, greining á því hvaða skyldur hvíla á fyrirtækjum og öðrum þeim sem lögin taka til, og fræðslu.