Stofnanir Evrópusambandsins áætla að auka þurfi fjárfestingar til loftslags- og orkumála um 180 milljarða evra árlega svo sambandið geti uppfyllt markmið sín og skuldbindingar fyrir árið 2030. Hluta fjármagnsins á að sækja úr opinberum sjóðum en það dugar ekki til. Fjárfestingar frá einkageiranum verða að brúa bilið og þar spilar fjármálakerfið lykilhlutverk.
Framkvæmdastjórn ESB birti aðgerðaáætlun á sviði sjálfbærra fjárfestinga á fyrri hluta árs 2018 og útlistaði þar þær aðgerðir sem sambandið hyggst hrinda í framkvæmd í því skyni að stýra flæði fjármagns í átt til sjálfbærra lausna. Hugmyndin er sú að gera endurbætur á fjármálakerfinu svo það geti orðið hluti af lausninni, ekki þrándur í götu við mótun græns og sjálfbærs hagkerfis. Í lok síðasta árs samþykkti sambandið þrjár reglugerðir á grundvelli aðgerðaáætlunarinnar. Reglugerðirnar þrjár varða EES-samninginn og munu því hafa áhrif hér á landi í náinni framtíð.
Sjálfbærar upplýsingaskyldur
Þeirri fyrstu, reglugerð um sjálfbæra upplýsingagjöf á sviði fjármálaþjónustu, er ætlað að auka gagnsæi fjárfestinga gagnvart sjálfbærniþáttum með því að auka upplýsingaskyldur þátttakenda á fjármálamarkaði (e. financial market participants) og fjármálaráðgjafa um fjárfestingar sem þeir bjóða upp á eða mæla með í ráðgjöf sinni.
Reglugerðin gerir fjárfestum kleift að líta á sjálfbærni fjárfestinga út frá tveimur andstæðum sjónarhornum - hvaða áhrif sjálfbærniþættir hafa á fjárfestingu og hvaða áhrif fjárfesting hefur á sjálfbærniþætti. Nánar tiltekið verður, annars vegar, að veita upplýsingar um sjálfbærniáhættu fjárfestinga, þ.e. hvernig atburðir eða aðstæður í tengslum við umhverfið, félagsleg málefni eða stjórnunarhætti geti haft neikvæð áhrif á virði fjárfestingarinnar sem um ræðir, og útskýra hvernig tekið er tillit til sjálfbærniáhættu við fjárfestingaákvarðanir og -ráðgjöf. Sem dæmi um sjálfbærniáhættu má hugsa sér hættuna á því að almennur vatnsskortur geri rekstrargrundvöll þeirrar atvinnustarfsemi sem fjárfest er í erfiðan eða að auknar öfgar í veðurfari valdi tjóni á undirliggjandi eignum fjárfestinga. Hins vegar ber að upplýsa um það hvort tekið er tillit til neikvæðra áhrifa fjárfestinga á sjálfbærniþætti, og ef svo er, hvernig. Upplýsingaskyldan felur í sér birtingu ýmissa upplýsinga um þessi atriði á vefsíðum, í lýsingum fyrir samningsgerð og í reglubundnum skýrslum, svo sem ársreikningum. Þar fyrir utan verður markaðsefni að vera í samræmi við umræddar upplýsingar.
Öllum bönkum og fjárfestingafélögum sem bjóða upp á eignastýringu eða fjárfestingaráðgjöf, stjórnendum verðbréfasjóða, sérhæfðra sjóða, áhættufjárfestingarsjóða og lífeyrissjóða, svo dæmi séu tekin, ber að fylgja fyrirmælum reglugerðarinnar, og því er óhætt að segja að áhrifa hennar muni gæta víða hér á landi sem annars staðar.
Sjálfbær viðmiðunargildi
Með annarri reglugerðinni kynnir ESB til leiks tvær tegundir sjálfbærra viðmiðunargilda sem fjárfestar geta miðað við í fjárfestingum sínum. Umsjónarmenn slíkra gilda verða að tryggja að undirliggjandi eignir þeirra séu í samræmi við markmið Parísarsáttmálans (EU Paris-aligned Benchmark) eða að kolefnisútblástur þeirra fari minnkandi (EU Climate Transition Benchmark).
Sjálfbært flokkunarkerfi
Þriðja reglugerðin kynnir til sögunnar samræmt flokkunarkerfi sem setur sérstök skilyrði fyrir því að atvinnustarfsemi fái stimpilinn umhverfissjálfbær atvinnustarfsemi. Samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar getur atvinnustarfsemi ekki talist vera umhverfissjálfbær nema að hún stuðli verulega að nánar tilteknum umhverfismarkmiðum, t.d. mildun
loftslagsbreytinga og aðlögun að loftslagsbreytingum. Flokkunarkerfið auðveldar aðildarríkjum og fjárfestum að styðja við raunverulega sjálfbæra atvinnustarfsemi og kemur í veg fyrir grænþvott. Reglugerðin gerir þær kröfur að þátttakendur á fjármálamarkaði birti upplýsingar um það hvort, og þá hvernig, fjármálaafurðir sem seldar eru sem sjálfbærar falla að flokkunarkerfinu. Þannig ætti traust á sjálfbærum fjárfestingum að aukast og sýnileiki þeirra í leiðinni.
Samfélagsleg ábyrgð fjárfesta og fyrirtækja
Umræða um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja hefur verið sýnileg upp á síðkastið en með nýjustu aðgerðum sínum tekur Evrópusambandið næsta skref. Með því að einfalda fjárfestum að fjárfesta frekar í umhverfisvænni atvinnustarfsemi en þeirri sem mengar, auðvelda aðgerðirnar aðgengi þeirra félaga sem stunda sjálfbæra atvinnustarfsemi að fjármagni og gerir það um leið eftirsóknarvert að taka upp sjálfbæra starfshætti.