Á síðasta eina og hálfa ári er óhætt að segja að hið daglega líf hafi tekið nokkrum stakkaskiptum í nafni sóttvarna. Flestir landsmenn þekkja nú, annað hvort á eigin skinni eða hjá nákomnum, beitingu úrræða sem fáir þekktu áður, sóttkví og einangrun.
Heilbrigðisyfirvöld hafa heimild til þess að mæla fyrir um sóttkví í tilviki smithættu og einangrun þegar um staðfest smit er að ræða. Markmiðið er að tryggja heilsu og öryggi almennings í landinu, en slíkar sóttvarnarráðstafanir fela óneitanlega í sér verulega takmörkun á stjórnarskrárvörðum mannréttindum landsmanna. Þetta hefur þó verið talið réttlætanlegt þegar almannahagsmunir krefjast og hagsmunir heildarinnar taldir vega þyngra heldur en einstaklingsbundin réttindi. Ákveðið hagsmunamat þarf ávallt að fara fram og þess gætt að íþyngjandi aðgerðir stjórnvalda séu bæði tímabundnar og í samræmi við meðalhóf.
Þegar heilbrigðisyfirvöld beita sínum valdheimildum með því að mæla fyrir um sóttkví eða einangrun, hefur slík stjórnvaldsákvörðun eðlilega í för með sér heilmikið rask á daglegu lífi. Þannig getur sá er slíkum takmörkunum sætir yfirleitt ekki stundað vinnu sína með hefðbundnum hætti. Þetta getur eðlilega orsakað ýmiss óþægindi, ekki síst mögulegt tekjutap þeirra sem í hlut eiga.
Miklu munaði er Alþingi samþykkti lög um greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda. Löggjöfin felur í sér greiðsluþátttöku ríkissjóðs á launagreiðslum launþega sem ekki geta sinnt starfi sínu sökum sóttkvíar eftir fyrirmælum yfirvalda. Er markmið laganna að styðja við atvinnurekendur sem greiða launamönnum sínum laun í sóttkví, þegar önnur réttindi þeirra, t.d. veikindaréttur, eiga ekki við.
Veikindaréttindi launþega felast í því að með vinnu ávinnur launþegi sér rétt til launa í forföllum vegna eigin veikinda eða barna sinna. Starfsmaður sem verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss á þannig rétt á launum frá vinnuveitanda sínum í tiltekinn tíma. Í kjarasamningum er þannig kveðið á um tiltekin skilyrði fyrir því að starfsmaður eigi rétt á launum frá vinnuveitanda í veikindafjarvistum. Eitt skilyrðanna er m.a. óvinnufærni starfsmanns. Í 8. gr. laga nr. 19/1979 um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, segir einnig að starfsmanni beri að sanna, óski atvinnurekandi þess, að hann hafi verið óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss, sé veikindaréttur nýttur.
Í þessu samhengi er viðeigandi að minnast á þá skilgreiningu hugtaksins ,,óvinnufærni‘‘ - ,,að sjúkdómur eða slys hafi það alvarleg áhrif á heilsu og starfsgetu starfsmanns að honum sé ókleift að vinna störf í þágu vinnuveitanda.‘‘ Ástand starfsmannsins, andlegt eða líkamlegt er þá þannig að það hindrar hann í því að inna starf sitt af hendi. Það er með öðrum orðum ekki nóg að staðfesta tilvist einhvers sjúkdóms, heldur þarf starfsmaður að sýna fram á að hann sé með öllu óvinnufær vegna sjúkdómsins.
Í dag er veruleikinn sá að um 84% landsmanna, 12 ára og eldri, hafa verið fullbólusettir. Þetta hefur sem betur fer breytt í grundvallaratriðum þeim áhrifum sem Covid-19 hefur á smitaða. Sýna þannig nýjustu upplýsingar að um 97% þeirra sem smitast eru einkennalitlir eða einkennalausir. Af þessum tölfræðiupplýsingum má leiða að yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem sýkjast af veirunni í dag, falla ekki undir skilgreiningu kjarasamninga eða laga um óvinnufærni á einangrunartíma og uppfylla þar með ekki það grundvallarskilyrði fyrir nýtingu veikindaréttar.
Þrátt fyrir þetta, takmarkast greiðsluþátttaka ríkisins á launum vegna sóttvarnaraðgerða enn við sóttkví. Smituðum einstaklingum sem þurfa að sæta einangrun er þannig nauðugur sá kostur að ganga á áunninn veikindarétt sinn, jafnvel þó einkennalausir og vinnufærir séu.
Með öðrum orðum nýtur einkennalítill eða einkennalaus einstaklingur með staðfest smit, ekki sömu réttinda og einstaklingur í sóttkví. Einstaklingur í einangrun þarf að sæta því að áunnin veikindarétti séu nýtt á meðan einangrunartíma stendur, þrátt fyrir að vera að fullu vinnufær. Þetta leiðir óhjákvæmilega til þess að komi til alvarlegra veikinda síðar hjá sama einstaklingi, mun hann búa við skertan veikindarétti og mögulegt tekjutap.
Hér skal ekkert spurningamerki sett við það að stjórnvöld skikki smitaða einstaklinga í einangrun, þó einkennalausir og vinnufærir séu. Slíkt kann vel að réttlætast af heildarhagsmunum, s.s. smithættu yfir í viðkvæmari hópa.
Hins vegar verður að setja stórt spurningamerki við það að einkennalausum og vinnufærum einstaklingi, sem vill sinna sínu starfi þó smitaður sé, en getur það ekki vegna fyrirmæla yfirvalda, sé gert að eyða áunnum veikindarétti sínum. Það er einfaldlega ekki í samræmi við skilgreiningu laga og kjarasamninga á hugtakinu óvinnufærni, sem er forsenda nýtingu veikindaréttar.
Að mati höfunda má færa fyrir því sterk rök að starfsmaður í slíkum aðstæðum kunni að eiga kröfu á ríkissjóð vegna tapaðra launatekna eða eftir atvikum skerts veikindaréttar. Að sama skapi kann atvinnurekandi sem vill taka við vinnuframlagi starfsmanns við slíkar aðstæður, en getur það ekki vegna fyrirmæla yfirvalda, jafnframt að eiga slíka kröfu.