Markaðssvikareglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) (e. Market Abuse Regulation eða MAR) nr. 596/2014 var innleidd með lögum nr. 60/2021 um aðgerðir gegn markaðssvikum.
MAR hefur m.a. að geyma bann við markaðsmisnotkun og ýmsar leiðbeiningar um hvað gæti talist til markaðsmisnotkunar. Markaðsmisnotkun felur í einföldu máli m.a. í sér að röngum eða misvísandi upplýsingum er dreift til markaðarins í gegnum fjölmiðla, þ.m.t. internetið, sem gefa eða eru líklegar til að gefa ranga eða villandi mynd af framboði á, eftirspurn eftir eða verði fjármálagernings. Önnur birtingarmynd markaðsmisnotkunar getur t.d. verið svokölluð sýndarviðskipti þar sem gefin er villandi mynd af framboði á, eftirspurn eftir eða verði fjármálagerninga. Grunnþáttur markaðsmisnotkunar er því að um sé að ræða miðlun rangra eða misvísandi upplýsinga sem geta verið mótandi fyrir verð fjármálagerninga þannig að misræmi sé á milli þeirra upplýsinga og raunveruleikans.
Dæmi um markaðsmisnotkun
Það eru ýmsar leiðir sem hægt er að fara til að miðla röngum eða misvísandi upplýsingum til markaðarins þannig að þær feli í sér markaðsmisnotkun.
Einfalt dæmi um það þegar veittar eru rangar upplýsingar í orði er þegar upplýsingarnar eru eitt en raunveruleikinn er annað. Má í þessu samhengi nefna áhugaverðan norskan dóm frá árinu 2003 þar sem slík háttsemi var fyrir hendi. Í þeim dómi hafði aðili orðið svo heppinn að hafa unnið í lottó og taldi skynsamlegt að fjárfesta andvirði vinningsins í dönsku félagi. Það fór þó ekki betur en svo að skömmu eftir kaupin fór hlutabréfaverð í félaginu að lækka. Þá tók vinningshafinn málin í sínar hendur og útbjó fréttatilkynningu þar sem fram kom að stórt fyrirtæki í Bandaríkjunum hefði áhuga á að kaupa félagið sem hann hafði fjárfest í og þá á mun hærra verði en endurspeglaðist í markaðsvirði hlutabréfanna þann daginn.
Hins vegar bjó ekkert að baki fréttatilkynningunni. Þessar upplýsingar fólu eðli máls samkvæmt í sér „jákvæðar upplýsingar“ og faxaði maðurinn fréttatilkynninguna til stærstu viðskiptablaðanna í Danmörku sem síðan birtu tilkynninguna. Eftir birtinguna varð þó nokkur hækkun á bréfunum og seldi maðurinn bréfin sín í kjölfarið. Upp komst um verknaðinn þar sem hann hafði farið í næstu matvöruverslun sem hafði faxtæki og sent tilkynninguna þaðan og náðst á öryggismyndavél verslunarinnar auk þess sem tilkynningin var merkt nafni hennar.
Nýlegt dæmi af Twitter
Það hefur vart farið framhjá neinum að Elon Musk, einn ríkasti maður heims, keypti nýlega samfélagsmiðilinn Twitter og leið ekki á löngu áður en hann var farinn að hrinda af stað ýmsum breytingum. Ein af þeim breytingum sem hann hefur komið í framkvæmd fólst í því að bjóða upp á þann valmöguleika að notendur gætu keypt auðkenningarstimpil (e. blue tick) fyrir litla 8 dollara. Þessi auðkenningarstimpill hafði fram að breytingunum verið notaður til þess að auðkenna notendur og til staðfestingar á að um raunverulegan aðila væri að ræða. Þetta nýja fyrirkomulag býður þannig upp á að hægt er að fá staðfestan hvaða reikning sem er í forritinu sem hefur haft í för með sér að fjölmargir falsaðir reikningar urðu til þar sem siglt er undir fölsku flaggi þekktra persóna.