Þann 1. september 2021 tóku gildi lög nr. 60/2021 um aðgerðir gegn markaðssvikum sem innleiða í íslenskan rétt ákvæði sk. markaðssvikareglugerðar ESB (MAR). Með MAR er afnumin ákveðin hugtakanotkun sem gilt hefur hér á landi frá árinu 2003, en frá því ári voru innherjar flokkaðir í þrennt; fruminnherja, tímabundna innherja og aðra innherja. Í eldri lögum um verðbréfaviðskipti var að finna ákvæði sem giltu um viðskipti fruminnherja og birtingarskyldu varðandi viðskipti þeirra fruminnherja sem jafnframt töldust til stjórnenda viðkomandi félags. Meðal þess sem kveðið var á um í eldri lögum var að fruminnherjum bar að sinna sk. rannsóknarskyldu, þ.e. fá heimild frá regluverði áður en viðskipti voru framkvæmd í því skyni að ganga úr skugga um að innherjaupplýsingar væru ekki fyrirliggjandi hjá viðkomandi félagi. Var þetta gert í því skyni að efla trúverðugleika í viðskiptum á markaði. Rannsóknarskyldu þessari bar að sinna sama dag og viðskipti fóru fram. Fruminnherjum bar í kjölfarið að tilkynna samdægurs viðskipti félaginu/regluverði, sem síðan var skylt að senda upplýsingar um viðskiptin til Fjármálaeftirlitsins og birta þær síðan opinberlega í þeim tilvikum sem fruminnherjar voru flokkaðir sem stjórnendur.
Með MAR er ekki að finna ákvæði sem fjalla um viðskipti fruminnherja. Þess í stað hefur MAR að geyma ákvæði sem kveður á um upplýsingaskyldu vegna viðskipta einstaklinga sem gegna stjórnunarstörfum hjá skráðum félögum og aðila sem eru þeim nákomnir. Þeir aðilar sem teljast alltaf til stjórnenda eru stjórnarmenn og framkvæmdastjóri (forstjóri í flestum félögum). Einnig falla hér undir einstaklingar sem gegna stjórnunarstörfum og aðrir lykilstjórnendur sem hafa reglulega aðgang að innherjaupplýsingum og hafa vald til að taka stjórnunarákvarðanir sem hafa áhrif á framtíðarþróun og rekstrarhorfur félagsins. Með aðilum sem eru nákomnir einstaklingum sem gegna stjórnunarstörfum er átt við maka, börn á framfæri stjórnandans, skyldmenni sem búa á sama heimili og hann sem og lögaðila er lúta stjórn hans eða annarra nákominna einstaklinga.
Þær reglur sem gilda um viðskipti einstaklinga sem gegna stjórnunarstörfum eru að þeim er annars vegar, eðlilega, óheimilt að eiga viðskipti búi þeir yfir innherjaupplýsingum og hins vegar er þeim almennt óheimilt að eiga viðskipti á 30 daga tímabili fyrir birtingu ársreiknings eða árshlutareiknings félagsins. Þá ber einstaklingum sem gegna stjórnunarstörfum að tilkynna um viðskipti sín til Fjármálaeftirlitsins og viðkomandi félags. Tilkynninguna skal senda með því að viðkomandi skráir sig með rafrænum skilríkjum inn á þjónustuvef eftirlitsins og fyllir út eyðublað sem þar er að finna. Slíka tilkynningu ber að senda án tafar í kjölfar viðskipta en eigi síðar en innan þriggja viðskiptadaga. Þá ber viðkomandi félagi að birta slíkar tilkynningar opinberlega í kjölfar móttöku þeirra. Að framansögðu er ljóst að gildistaka MAR hefur í för með sér töluverðar breytingar hvað varðar viðskipti æðstu stjórnenda einkum í ljósi þess að þeir þurfa ekki að óska eftir heimild til viðskipta og hafa að auki rýmri tíma til þess að upplýsa um slík viðskipti.
Í sambandi við ofangreint er jafnframt rétt að minnast á að með MAR hverfur sú krafa sem gerð var til skráðra félaga um að þau haldi úti sérstökum lista yfir innherja. Vissulega er að finna ákvæði í MAR um innherjalista en samkvæmt þeim ber einungis að útbúa slíka lista í þeim tilvikum sem innherjaupplýsingum er til að dreifa, þ.e. upplýsingum sem eru nægilega tilgreindar upplýsingar sem hafa ekki verið gerðar opinberar, varða félagið beint eða óbeint og væru líklegar til að hafa marktæk áhrif á fjármálagerninga yrðu þær gerðar opinberar. Þannig gildir ef einstaklingar sem gegna stjórnunarstörfum hafa fengið tilkynningu frá félaginu þess efnis að nafn þeirra hafi verið skráð á innherjalista hefur það sjálfkrafa í för með sér að þeim einstaklingum er óheimilt að eiga viðskipti á meðan slíkum innherjalista er til að dreifa. Þá falla slíkir innherjalistar úr gildi um leið og upplýsingarnar sem þá varða hafa verið gerðar opinberar eða upplýsingarnar teljast að öðru leyti ekki lengur innherjaupplýsingar.
Þá er í MAR að finna nýmæli sem gerir einstaklingum sem gegna stjórnunarstörfum skylt að tilkynna um veðsetningu eða lán fjármálagerninga. Af þessu ákvæði leiðir að taki einstaklingur sem gegnir stjórnurstörfum lán fyrir kaupum á hlutabréfum gegn veði í bréfunum þarf að tilkynna sérstaklega um slíkt.
Loks er vert að geta breytingar sem leiðir af gildistöku MAR og varðar tilkynningarskyldu með hlutabréf í skráðum félögum, þ.e. viðskipti félaga með eigin bréf. Samkvæmt eldri verðbréfaviðskiptalögum, og reglum settum samkvæmt þeim, gilti að viðskipti félags með eigin hluti voru tilkynningarskyld með sama hætti og gilti um viðskipti fruminnherja. Í MAR er ekki öðrum ákvæðum til að dreifa er varða viðskipti með eigin bréf félaga en varða viðskipti samkvæmt endurkaupaáætlunum. En um slík viðskipti gildir að tilkynna ber upplýsingar um endurkaupaáætlun áður en viðskipti hefjast. Viðskipti samkvæmt áætluninni skulu tilkynnt til Fjármálaeftirlitsins og birt opinberlega, farið skal eftir fullnægjandi verði og magntakmörkunum. Að auki skulu viðskiptin framkvæmd í tilteknum tilgangi, þ.e. að lækka hlutafé, standa við skuldbindingar tengdar skiptanlegum skuldagerningum eða standa við skuldbindingar sem leiða af kaupréttaráætlunum.
Þannig gildir ekki skv. MAR að önnur viðskipti útgefanda, t.d. þegar útgefandi afhendir bréf til starfsmanna sem nýta sér kauprétt, séu sérstaklega tilkynningarskyld. Hér er því á ferðinni nokkuð markverð breyting á framkvæmd á verðbréfamarkaði, frá því sem hingað til hefur tíðkast hér á landi.