LOGOS gætti hagsmuna Símans hf. sem var sýknaður af skaðabótakröfu Sýnar hf. að fjárhæð rúmar 898 milljónir króna auk dráttarvaxta, með dómi Landsréttar sl. föstudag, 8. nóvember. Var Sýn jafnframt sýknað af kröfum Símans í gagnsök. Um var að ræða kröfu vegna verðlagningar á símtölum inn í farsímakerfi Símans á árunum 2001-2007.
Málið má rekja til verðlagningar á svokölluðum lúkningargjöldum í farsímaneti en um er að ræða gjald sem farsímafyrirtæki innheimta hvort af öðru þegar viðskiptavinir þeirra hringja í viðskiptavini í öðru farsímakerfi. Landsréttur staðfesti dóm héraðsdóms um sýknu og hafnaði því að Sýn hefði sýnt fram á það í málinu að félagið hefði orðið fyrir tjóni vegna verðlagningar Símans. Vísaði Landsréttur m.a. til þess því til stuðnings að gögn málsins sýndu að Sýn hefði sjálft krafið Símann um hærri gjöld á sama tímabili, fyrir símtöl inn í farsímakerfi forvera Sýnar.
Halldór Brynjar Halldórsson lögmaður hjá LOGOS flutti málið fyrir Símann hf.