Með dómi Landsréttar sl. föstudag var staðfest sú niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur að fella úr gildi úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála í máli Símans hf. gegn Samkeppniseftirlitinu.
Málið laut að þeirri ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að leggja 500 milljón króna sekt á Símann fyrir ætluð brot gegn skilyrðum sem hvíla á félaginu, með fyrirkomulagi við sölu á útsendingum frá ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.
Tók Landsréttur undir með héraðsdómi um að Samkeppniseftirlitið hefði ekki sýnt fram á að Síminn hefði brotið gegn skilyrðunum.
Var íslenska ríkið því dæmt til að endurgreiða sektina, sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafði áður lækkað í 200 milljónir króna, auk þess að greiða Símanum samtals 5 milljónir króna í málskostnað.
Halldór Brynjar Halldórsson, hæstaréttarlögmaður hjá LOGOS lögmannsþjónustu, flutti málið fyrir hönd Símans.