En hvers vegna er þetta orðið svona áberandi núna? Svarið liggur í nýju persónuverndarlögunum og þeim kröfum sem lögin leggja á rekendum vefsíðna, en í samræmi við það sem rakið verður á eftir má velta því fyrir sér hvaða skilning þeir sem reka vefsíður hafi á sínum skyldum. Þá koma fjarskiptalögin einnig til skoðunar þegar verið er að meta hverjar skyldur þeirra sem reka vefsíður eru í hverju tilviki fyrir sig.
En hvað eru vefkökur? Vefkökur eru í raun litlar textaskrár eða gagnapakkar sem eru vistaðar á tölvu (eða öðrum snjalltækjum) þeirra sem heimsækja viðkomandi síðu á netinu. Vefkökurnar eru sendar af vefþjóni til vafra notandans (t.d. Internet Explorer eða Google Chrome). Í hvert skipti sem sami vafri biður sama vefþjón um viðkomandi síðu er vefkakan send með og les þá vefþjóninn þær upplýsingar sem kakan hefur að geyma. Almennt eru vefkökur notaðar til að geyma upplýsingar um fyrri aðgerðir notenda. Vefkökur eru að mörgu leyti gagnlegar notendum og stundum nauðsynlegar fyrir tiltekna virkni. Þær gera t.d. vefþjónum kleyft að vita hvort notandi hefur skráð sig inn og halda þeirri innskráning á milli undirsíðna. Okkur þætti það sjálfsagt afar pirrandi ef við þyrftum alltaf að skrá okkur aftur og aftur inn í heimabankann okkar, eftir því sem við færðumst á milli undirsíðna. Önnur tegund af kökum er notaðar í auglýsingatilgangi.
Vefkökur er hægt að flokka á mismunandi hátt. Til dæmis er hægt að flokka þær í eftir því hve lengi þær lifa. Í öðru lagi eftir því hvaðan þær stafa, sem sagt frá þeim sem rekur vefsíðuna eða samstarfsaðila hans. Facebook like-takki á síðu fjölmiðils felur t.d. í sér vefköku frá Facebook, ekki þeim sem rekur fjölmiðlasíðuna. Það að like-takkinn sé á mörgum mismunandi síðum gerir Facebook kleyft að fylgjast með hegðun á fleiri en einni síðu og þar með að safna ítarlegri upplýsingum um hvað notandinn er að skoða á netinu. Í þriðja lagi er hægt að flokka vefkökur eftir notagildi. Síðastnefndi flokkurinn er sá mikilvægasti, að minnsta kosti þegar verið er að tala um vefkökur í samhengi við persónuverndarlögin. Með notagildi er þá átt við hvaða upplýsingum sé safnað og í hvaða tilgangi. Umfjöllunin hér miðar eftirleiðis við flokkun eftir notagildi.
Notagildi vefköku
Þegar horft er til notagildis vefköku skiptir máli hvort hún er nauðsynleg eða ekki. Vefkakan getur þannig verið nauðsynleg svo síðan geti sinn grundvallar starfsemi sinni sbr. dæmið hér að ofan um heimabankann, eða veitt þá þjónustu sem notandinn hefur óskað sérstaklega eftir, eins og t.d. „flash“ vefkökur sem eru nauðsynlegar svo hægt sé að spila myndbönd og hljóðupptökur. Flokkun eftir notagildi getur einnig vísað í framkvæmda vefkökur. Það eru þá allar kökur sem snúa að virkni síðunnar, en eru ekki nauðsynlegar, t.d. vefkökur fyrir tungumálastillingar. Þá eru til tölfræðikökur, en slíkar kökur eru margbreytilegar. Það er oft svo að slíkar kökur eru ekki að senda persónuupplýsingar í skilningi persónuverndarlaganna, því upplýsingarnar eru ekki alltaf rekjanlegar til ákveðins einstaklings. Þær eru oft notaðar til að bæta hraða og greina ferla við notkun. Auglýsingakökur eru þær kökur sem oft er verið að vísa til þegar verið er að ræða persónusniðnar auglýsingar.