Er hlutfall skatts af arði of lágt miðað við tekjuskatt af launum?

Viðskiptablaðið birti nýlega grein eftir Jón Elvar Guðmundsson þar sem fjallað er um það hvort hlutfall skatts af arði sé of lágt miðað við tekjuskatt af launum.

Höfundur: Jón Elvar Guðmundsson
Maður pikkar á vasareikni, skjöl og tölva á borði fyrir framan hann

Umræða um réttmæti, og eftir atvikum réttlæti, gildandi skatthlutfalls fjármagnstekna af hlutafé kemur oft upp. Sitt sýnist hverjum og kann það að mótast af pólitískum skoðunum hvers og eins. Vissulega er það þannig að pólitík hefur veruleg áhrif á það hvað einhver kann að telja sanngjarnt, réttlátt og eðlilegt. Hér verður það skoðað hvort það sé réttmætt að halda því fram að einstaklingur sem hefur megnið af tekjum sínum sem arðstekjur borgi í raun lægri skatta en sá sem er launþegi að meginstofni.

Við ákvörðun skatthlutfalls mismunandi tekna er almennt góð regla að skattalög ættu að vera hlutlaus gagnvart því hvernig einstaklingar ákveða að nýta orku sýna til tekjuöflunar. Þannig ættu skattalög í grunninn ekki að gera greinarmun á því hvort einstaklingur vill afla tekna sem launamaður, stofna til rekstrar, gerast rithöfundur o.s.frv.

Ef vikið er frá þessu þá er það af pólitískum hvötum hverju sinni, sbr. nýlegt dæmi um breytingar varðandi höfundalaun. Hér verður horft alveg framhjá slíkum hvötum. Ætlunin er sú að skoða hvort skatthlutfall af fjármagnstekjum er of lágt miðað við skatthlutfall launa.

Tekjuskattur af launum

Tekjuskattshlutfall einstaklinga leiðir af fjórum meginþáttum, tekjuskatti til ríkisins, útsvari til sveitarfélaga, persónuafslætti og fjárhæð tekna. Af þessum fjórum þáttum eru tveir breytilegir, þ.e. fjárhæð tekna og útsvar til sveitarfélaga sem ráðast af mismunandi launum og búsetu.

Ríkisskattstjóri birtir árlega skatthlutfall í staðgreiðslu og til hægðarauka er miðað við það hér. Fyrir árið 2019 kemur fram á heimasíðu embættisins að skatthlutfall í staðgreiðslu sé 36,94% af tekjum til kr. 834.707 en af tekjum umfram þá fjárhæð er skatthlutfallið 46,24%. Á sömu heimasíðu kemur fram að persónuafsláttur á mánuði sé kr. 52.907.

Ef miðað er við þetta og horft til þriggja einstaklinga sem hafa mánaðarlaun upp á kr. 500.000, 1.000.000 og 1.500.000 þá eru niðurstöðurnar fyrir þessa þrjá fundnar þannig að reiknaður er skattur af launum þeirra, af þeirri upphæð er dreginn persónuafsláttur og þá kemur út sá skattur sem er til greiðslu. Hlutfall skatts til greiðslu af launum er svo raunskatthlutfall tekna viðkomandi.

Tilvist persónuafsláttar gerir það að verkum að skatthlutföll í staðgreiðslu endurspegla ekki endanlegt skatthlutfalls einstaklinga heldur breytist raunskatthlutfallið til hækkunar eftir því sem laun hækka, meðfylgjandi línurit sýnir þróun skatthlutfalls launa miðað við tekjur. Í ofangreindum dæmum er niðurstaðan sú að sá sem er með 500 þúsund greiðir í raun kr. 131.793 í skatt eða um 26,43%, sá sem er með milljón greiðir í raun kr. 331.865 í skatt eða um 33,19% og sá sem er með eina og hálfa milljón greiðir í raun kr. 563.065 í skatt eða um 37,54%.

Eftir að ríkisskattstjóri hóf að birta raunveruleg skatthlutföll einstaklinga á álagningarseðlum getur hver og einn athugað sinn álagningarseðil til þess að sjá raunverulegt skatthlutfall sitt. Því getur lesandi borið sinn álagningarseðil saman við ofangreindar niðurstöður til þess að athuga hvort þær séu ekki nærri lagi, þar geta bætur þó haft áhrif.

Fjármagnstekjuskattur af arði

Víkur þá að fjármagnstekjuskattinum. Hann er 22% nú af arði, en eins og í tilfelli tekjuskattsins þá er ekki nægjanlegt að horfa eingöngu til þess hlutfalls. Til þess að hægt sé að greiða arð út úr félagi þá þarf félagið fyrst að afla tekna og af hagnaði verður félagið fyrst að greiða 20% skatt áður en arður er greiddur.

Af þessu leiðir að þegar félagið nær að skila hagnaði upp á 100 til hagsbóta fyrir hluthafann þá greiðir það 20 af þessum 100 í skatt og getur þá úthlutað 80 til hluthafans. Af þeirri arðgreiðslu þarf að greiða 22% skatt eða 17,6. Þannig er heildar skattgreiðsla af hverjum 100 kr. samtala skatts af tekjunum á báðum stigum, þ.e. 20 + 17,6 eða 37,6 kr. Raun skatthlutfall reiknað með sama hætti og að ofan er 37,6%.

Þegar skattlagning hluthafa er skoðuð er það þetta samspil fjármagnstekjuskatts og tekjuskatts sem ræður raunverulegri niðurstöðu. Af því leiðir að við samanburð skattlagningu hluthafa og launamanns er nauðsynlegt að skoða heildarmyndina svo hægt sé að taka upplýsta afstöðu til þess hvort hlutfall skatts af arði sé of lágt.

„það er ótvírætt ástæða fyrir því að hlutfall fjármagnstekjuskatts af arði er lægra en skatthlutfall launatekna.“

Niðurstaða

Svarið við spurningunni sem jafnframt er heiti greinarinnar er nei – það er ótvírætt ástæða fyrir því að hlutfall fjármagnstekjuskatts af arði er lægra en skatthlutfall launatekna. Ástæðan fyrir muninum er tekjuskattur félaga sem greiðist af tekjum áður en til arðgreiðslna kemur og tekjurnar þá skattlagðar aftur.

Sökum þess hve mikill munur er á raunverulegu skatthlutfalli launa eftir fjárhæð þeirra er ekki hægt að ákvarða fjármagnstekjuskatthlutfall arðs sem leiðir til alveg sömu niðurstöðu og skattlagning launa, til þess þyrfti hlutfallið að vera þrepaskipt og hluthafar að njóta persónuafsláttar á móti skattlagningu arðs. Miðað við það sem hér hefur verið leitt fram er ljóst að sá sem aflar um einnar og hálfrar milljónar á mánuði eða minna í starfi greiðir lægri skatt en sá sem aflar sömu fjárhæðar sem hluthafi. Þetta breytist svo með hækkandi launum, sá sem aflar tíu milljóna á mánuði greiðir raunskatthlutfall upp á um 44,93% og greiðir því mun hærri skatt en hluthafi með sömu tekjur. Meðfylgjandi línurit sýnir þróun raunskatthlutfalls og ber saman tekjuskattshlutfall launþega og hluthafa upp að tveimur milljónum á mánuði í tekjur.

Eflaust er það svo að sitt sýnist hverjum um hvernig niðurstöðurnar ættu að vera. Hér er eingöngu reynt að leiða í ljós hverjar þær eru í raun að gildandi reglum. Raunin er sú að gildandi reglur laga um tekjuskatt innihalda engan skattalegan hvata fyrir einstakling sem telur sig geta aflað allt að einni og hálfri milljón á mánuði, hvort heldur sem er sem launamaður eða í eigin rekstri, til þess að láta reyna á eigin rekstur. Þvert á móti er núverandi skatthlutfall arðstekna letjandi til þess að stofnað sé til eigin rekstrar og verður það enn frekar ef skatthlutfall launa lækkar án þess að fjármagnstekjuskattur af arði lækki líka. Að lokum mætti kannski spyrja þeirrar spurningar hvort það sé svo í raun að það halli svo mjög á launafólk þegar borið er saman skattlagning tekna af rekstri og skattlagning launatekna?

Greinin í Viðskiptablaðinu.

Sérfræðingarnir okkar