Í sumar voru samþykktar á Alþingi umfangsmestu breytingar sem gerðar hafa verið á samkeppnislögum hér á landi síðastliðinn áratug. Verður þó aðeins ein þeirra gerð að umtalsefni hér, en hún tekur gildi nú um áramótin næstkomandi.
Í þeirri breytingu felst að fyrirtæki sækja ekki lengur um undanþágu til Samkeppniseftirlitsins fyrir lögmætu samstarfi sín á milli. Þess í stað er það nú á ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra sem að einhvers konar samstarfi standa, að meta hvort skilyrði 15. gr. samkeppnislaga fyrir lögmætu samstarfi séu uppfyllt. Sé svo ekki kann samstarfið að brjóta gegn 10. gr. laganna, teljast ólögmætt samráð, með tilheyrandi sektum sem geta numið allt að 10% heildarveltu þess fyrirtækis (og samstæðu þess) sem aðild á að broti, ásamt mögulegri refsiábyrgð einstaklinga.
Almennt má segja að um talsverða réttarbót sé að ræða. Þannig var samsvarandi breyting gerð á samkeppnislöggjöf Evrópusambandsins, sem íslensk samkeppnislög byggja á, fyrir yfir hálfum öðrum áratug. Voru rökin að baki þeirri breytingu meðal annars þau að meðferð undanþágubeiðna tæki of langan tíma á vettvangi Evrópusambandsins. Loksins þegar þær væru veittar hefði bæði tapast mikilsverður tími og hagsmunir. Þar sem samstarf þarf að uppfylla eftirgreind skilyrði til að teljast lögmætt, fælist í þessari tímalengd í reynd skaðleg áhrif á samkeppni:
- Stuðla að bættri framleiðslu eða dreifingu á vöru eða þjónustu eða efla tæknilegar og efnahagslegar framfarir
- Veita neytendum sanngjarna hlutdeild í ávinningi sem af þeim hlýst
- Leggja ekki höft á hlutaðeigandi fyrirtæki sem óþörf eru til að settum markmiðum verði náð og
- Veita fyrirtækjunum ekki færi á að koma í veg fyrir samkeppni að því er varðar verulegan hluta framleiðsluvaranna eða þjónustunnar sem um er að ræða.
Hættan er sú að sé Samkeppniseftirlitið síðar meir ósammála því mati fyrirtækja sem að samstarfi standa að skilyrðin hafi verið uppfyllt, teljist samstarfið ólögmætt samráð að mati stofnunarinnar.
Þó breytingin sé þannig ótvírætt til hagsbóta felst í henni að fyrirtækjum er fengið vandasamt verkefni sem felur í sér mat á því hvort skilyrðin eru uppfyllt eða ekki. Þannig er ekki lengur unnt að fá „blessun“ Samkeppniseftirlitsins fyrir samstarfi heldur er það á ábyrgð fyrirtækjanna sjálfra að meta hvort ofangreind skilyrði séu uppfyllt hverju sinni.
Þar getur hins vegar verið vandrataður vegurinn enda hafa fyrirtæki meðal annars á undanförnum árum gagnrýnt Samkeppniseftirlitið fyrir skort á leiðbeiningum og of lítinn fyrirsjáanleika í niðurstöðum. Hættan er sú að sé stofnunin síðar meir ósammála því mati fyrirtækja sem að samstarfi standa að skilyrðin hafi verið uppfyllt, teljist samstarfið ólögmætt samráð að mati stofnunarinnar. Viðurlög fyrir slík brot eru þung og geta numið allt að 10% af heildarveltu, auk hins neikvæða umtals í almennri umræðu sem óhjákvæmilega fylgir fregnum af „ólögmætu samráði“ fyrirtækja og möguleg refsiábyrgð einstaklinga sem að brotinu koma og stjórnenda.
Það er þó ekki svo að fyrirtæki geti hvergi leitað um leiðbeiningar um hvernig túlka beri ofangreind skilyrði og hvenær þau séu uppfyllt hverju sinni. Þannig má meðal annars taka mið af þeirri rúmlega 15 ára framkvæmd innan Evrópusambandsins sem átt hefur sér stað frá því undanþáguheimildin var afnumin á þeim vettvangi. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur einnig gefið út leiðbeiningarreglur sem líta má til við matið. Loks má hafa hliðsjón af framkvæmd Samkeppniseftirlitsins við veitingu undanþága á síðastliðnum árum, ásamt leiðbeiningum sem Samkeppniseftirlitinu ber að gefa út á grundvelli samkeppnislaga.
Efnislega eru reglurnar þannig óbreyttar um það hvers konar samstarf fyrirtækja er heimilt, en stóra breytingin og áskorunin fyrir fyrirtæki felst í því að leggja nú sjálfstætt mat á það með aðstoð sérfræðinga hvort skilyrði slíks samstarfs eru uppfyllt áður en stofnað er til samstarfsins.