LOGOS varð til með samruna Málflutningsskrifstofunnar Suðurlandsbraut 4a og A&P lögmanna. Með samrunanum varð til öflug lögmannsstofa sem getur í krafti stærðar, reynslu og þekkingar veitt betri og sérhæfðari þjónustu og sinnt einstökum verkefnum á skjótari og hagkvæmari hátt en áður var mögulegt. Hefur stofan vaxið mikið frá samrunanum. LOGOS opnaði skrifstofu í London árið 2006 en einnig var starfrækt skrifstofa í Kaupmannahöfn á árunum 2008-2012.
Sveinn Björnsson
Sveinn Björnsson fæddist árið 1881. Hann lauk stúdentsprófi aldamótaárið 1900 og lögfræðiprófi frá Hafnarháskóla sjö árum síðar.
Hann opnaði skrifstofu undir heitinu Málafærsluskrifstofan það sama ár og lét um leið talsvert að sér kveða í þjóðmálum. Sveinn var einn stofnenda Hf. Eimskipafjelags Íslands árið 1914 og forstjóri þess næstu sex ár. Einnig var hann meðal stofnenda Brunabótafélags Íslands og Sjóvátryggingafélags Íslands (síðar Sjóvá). Til gamans má geta þess að Eimskipafélagið hefur verið í viðskiptum við LOGOS frá upphafi.
Þá var Sveinn meðal helstu hvatamanna og fyrsti formaður Rauða kross Íslands, sem er nágranni LOGOS í Efstaleitinu.
Við stofnun Hæstaréttar árið 1920 voru aðeins tveir starfandi hæstaréttarlögmenn á landinu. Auk Sveins var það Eggert Claessen.
Óhætt er að segja að Sveinn hafi haft mörg járn í eldinum á þessum tíma enda sat hann á þingi, í bæjarstjórn og í stjórnum margra félaga auk málafærslustarfa.
Þetta álag dró dilk á eftir sér og að læknisráði þáði Sveinn boð um að gerast fyrsti sendiherra Íslands, með aðsetur í Kaupmannahöfn. Framhaldið verður ekki rakið hér í smáatriðum enda þekkja það flestir. Sveinn var sendiherra í Kaupmannahöfn til ársins 1940. Árið 1944 var hann síðan kosinn fyrsti forseti Íslands og gegndi því embætti til dauðadags árið 1952.
LOGOS
Orðið LOGOS kemur úr grísku og er öflugt orð sem á sér margar merkingar. Þó það sé oft þýtt á ensku sem „orð“ getur það einnig þýtt hugsun, skynsemi, lögmál, siðaregla eða rökfræði.