Helga Melkorka Óttarsdóttir hóf störf á LOGOS árið 2001, fyrst sem fulltrúi en sem meðeigandi frá árinu 2002. Auk þess situr hún í stjórn Eimskipafélags Íslands og í stjórn og framkvæmdastjórn Viðskiptaráðs Íslands. „Áður bjó ég í Brussel og starfaði hjá Eftirlitsstofnun EFTA í nærri sex ár og þar á undan var ég í framhaldsnámi í Þýskalandi eftir að ég lauk laganámi frá lagadeild Háskóla Íslands,“ segir Helga Melkorka og rifjar upp fyrsta stjórnarfund sinn í nýskipaðri stjórn þýsk-íslenska Viðskiptaráðsins þar sem stjórnarmenn röktu feril sinn.
„Ég var fljót að telja upp hvað hefði á daga mína drifið á meðan aðrir voru með langan lista af störfum að því er mér fannst,“ segir Helga Melkorka og hlær. „Ég kom hingað inn sem fulltrúi og sá þá ekki fyrir mér að vera lengi í lögmennsku. Þetta væri eitthvað sem mig langaði hins vegar að prófa og ég held að þetta blundi í ansi mörgum sem læra lögfræði að vilja prófa lögmennsku. Þetta er mjög fjölbreytt starf og maður hittir margt fólk. Maður veit líka ekki að morgni nákvæmlega hvernig dagurinn mun leggjast. Það getur alltaf eitthvað komið upp á í byrjun dags sem setur annað til hliðar,“ segir Helga Melkorka. „Í grunninn er þetta auðvitað þjónustustarf þar sem lögmaðurinn þarf að vera vakinn og sofinn í störfum sínum við að gæta hagsmuna umbjóðenda.“
Miklar breytingar á sautján ára ferli
Helga Melkorka segir að töluverðar breytingar hafi orðið á lögmannsstörfunum undir lok síðustu aldar. „Kannski rétt áður en ég kem inn í lögmennsku. LOGOS verður til eftir sameiningu tveggja stofa árið 2000. Um það leyti varð hér á landi til fyrirtækjalögfræði eins og við þekkjum hana í dag. Þá var farið að huga að fleiri atriðum í viðskiptasamningum – ekki að það hafi ekki verið gerðir samningar áður, það var bara farið að huga að fleiri þáttum. Þjónusta við viðskiptalífið var áður ekki eins skýrt skilgreind. Regluverk hefur líka breyst mikið á undanförnum árum og verður flóknara og flóknara. Það þarf að huga að svo mörgu í starfsemi sem maður hefði kannski haldið að væri ekkert voðalega flókin. Núna eru hins vegar að verða miklar breytingar vegna tækni. Það er mjög margt sem breytist í þessu umhverfi, bæði í starfsumhverfinu og aðferðafræðinni en líka í starfsemi fyrirtækjanna sem við vinnum fyrir. Þá eru allskonar álitaefni sem kannski voru ekki til áður.“
Í þessu samhengi berst talið að því sem framundan er og þeim áhrifum sem aukin sjálfvirkni kunni að hafa á störf lögmanna, bæði viðfangsefni þeirra og starfsumhverfi. Helga Melkorka er þeirrar skoðunar að störf og starfsumhverfi lögmanna gangi nú í gegnum sambærilegar breytingar og aðrar greinar með tilkomu aukinnar sjálfvirkni. „Þetta hefur verið kallað því skemmtilega orði „straumhvörf“ á íslensku. Tæknin sem maður getur nýtt sér er til dæmis þannig að á ákveðnum sviðum er hugbúnaður sem getur gert áreiðanleikakannan þetta fyrir alvöru og verður bara betra og betra með tímanum því þetta er „self learning“ hugbúnaður. Þessu er kannski ekki treyst 100% ennþá en verður bara betra og betra.“
Eruð þið þá kannski á þeim stað að vilja ráða til ykkar forritara?
„Það hefur komið til tals. Enn sem komið er höfum við þó ekki stigið það skref. Tungumálið er líka oft þröskuldur. En til dæmis væri í ýmsum tilfellum hægt að útbúa drög að hluthafasamkomulagi sjálfvirkt. Þá er þetta gagnagrunnur þar sem þú slærð inn grunnstærðir eins og fjölda hluthafa, hvers konar starfsemi félagið er í, hvort það eigi að vera forkaupsréttur og svo framvegis. Út kemur svo skjal sem hefur að geyma þau ákvæði sem óskað var eftir miðað við viðkomandi starfsemi.“ Þetta gæti haft í för með sér miklar breytingar á lögmannsstarfinu.
„Maður sér ekki ennþá að þetta hafi beint í för með sér þörf fyrir minni mannskap en þetta mun hafa ýmis áhrif. Lögfræðilega eru líka mjög áhugaverðar spurningar í tengslum við fjórðu iðnbyltinguna. Á til dæmis að skattleggja vélmenni? Þetta er næstum því heimspekilegt. Við erum í miklum samskiptum við kollega okkar erlendis og fylgjumst með því sem þar er að gerast. Maður sér að það er hvergi búið að skipta út lögfræðingum fyrir vélmenni og hugbúnað. Þetta er íhaldssöm grein og það eru ákveðin atriði sem, gervigreindin nær ekki ennþá utan um, hlutir eins og dómgreind og réttlæti. Það eru spurningar um hvort sjálfkeyrandi bíll á til dæmis frekar að keyra á gamla manneskju en barnið og svo margt fleira. Þeir sem hafa mesta trú á þessu segja að sá dagur komi að það verði búið að forrita þetta,“ segir Helga Melkorka.
„En í til að mynda samningagerð og við úrlausn deilumála er svo margt sem þarf að huga að sem tekur sérstaklega mið af aðstæðum í tilteknu máli.“ Hún segir marga í stétt lögmanna sjá hver þróunin er en vegna sérstaks eðlis lögmannsstarfsins, þar sem margir starfa sem einyrkjar, er erfitt nema fyrir þá allra stærstu að notfæra sér tæknina að svo stöddu. „Við hins vegar fylgjumst mjög vel með. Okkur er til dæmis reglulega boðinn allskonar hugbúnaður sem við setjum okkur inn í því það er mjög mikilvægt að vita hvað er í boði.“