Þórólfur tekur við starfinu af Helgu Melkorku Óttarsdóttur, lögmanni, sem gegnt hefur starfinu síðastliðin 6 ár. Þórólfur hefur verið einn eigenda LOGOS frá árinu 2009. Áður starfaði hann hjá Kaupþingi banka sem lögfræðingur og síðar framkvæmdastjóri í fyrirtækjaráðgjöf og hjá Hæstarétti Íslands sem aðstoðarmaður dómara. Hann hefur í störfum sínum lagt megináherslu á félagarétt og fyrirtækjaráðgjöf.
„Ég hlakka til að takast á við þetta nýja verkefni samhliða lögmannsstörfunum. Ég tek við góðu búi af forvera mínum sem hefur leitt uppbyggingarstarf stofunnar af mikilli elju á undanförnum árum,“ segir Þórólfur.
Helga mun áfram sinna lögmennsku hjá lögmannsstofunni og mun sem fyrr leggja áherslu á fyrirtækjaráðgjöf, samkeppnisrétt, Evrópurétt og málflutning. „Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að sinna aftur alfarið lögmannsstörfum þar sem verkefnin eru fjölbreytt sem fyrr. Það hefur verið ákaflega gefandi og lærdómsríkt að vera við stjórnvölinn hjá LOGOS, stærstu lögmannsstofu landsins, þar sem einstaklega hæfur hópur einstaklinga starfar,“ segir Helga, sem hefur tekið sæti í stjórn félagsins.
Þórólfur er fæddur árið 1974 og lauk lagaprófi frá Háskóla Íslands 1999. Hann lauk LL.M gráðu frá Harvard Law School 2002, hlaut réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 2000 og fyrir Hæstarétti árið 2016. Þórólfur er kvæntur Nönnu Viðarsdóttur og eiga þau fimm börn.
LOGOS lögmannsþjónusta er stærsta lögmannsstofa landsins og rekur skrifstofur í Reykjavík og London. Hjá félaginu starfa alls 75 manns. Velta félagsins nam liðlega 2 milljörðum króna á síðasta ári.