Vegferð fólks sem sakað er um skattsvik á Íslandi er að öllu jöfnu löng og erfið ganga. Annars vegar vegna þess að málsmeðferðin fer fram á þremur stjórnsýslustigum og eftir það getur málið farið fyrir tvö eða þrjú dómstig til viðbótar. Hins vegar vegna þess að dómari verður að lögum að dæma tilteknar lágmarksrefsingar nánast óháð mati á „raunverulegri sök“ hins ákærða. Lágmarkssektir eru yfirleitt svo háar að hætta er á að fólk missi allar sínar eigur og lendi í skuldafangelsi.
Málsmeðferð skattsvikamála getur tekið mörg ár og í sumum tilvikum áratug eða lengur. Allan þann tíma bíður ákærði endanlegs dóms er í flestum tilvikum endar með hárri sekt sem mörgum verður um megn að greiða.
Í dag er óvinsælt að tala máli skattborgarans. Ekki síst eftir fjármálahrunið og í kringum Panamaskjölin. Þannig hefur umræðan verið nánast einhliða í áratug.
Í grein þessari eru notaðar einfaldaðar alhæfingar en þeir sem með þessi mál fara vita að þær eru í öllum aðalatriðum réttar þó eflaust megi hártogast um aukaatriði.
Af hverju er þetta svona?
Í fyrsta lagi er niðurstaða skattsvikamála fyrir dómstólum nánast alveg fyrirséð í upphafi og löngu áður en ákæra hefur verið gefin út. Ástæða þess er að á vettvangi dómstólanna hefur myndast dómvenja þess efnis að ef upphæðir meints skattundanskots eru nægilega háar er sjálfkrafa litið svo á saknæmisskilyrðum sé fullnægt. Með saknæmisskilyrðum í þessu samhengi er átt við að samkvæmt gildandi lögum þarf að vera hægt að rekja skattundanskot til ásetnings eða stórkostlegs gáleysis skattaðila svo að um refsiverða háttsemi sé að ræða. Samkvæmt dómaframkvæmdinni er það því þannig upphæðin sjálf sem sker í raun úr um sektina fyrirfram. Þetta er óháð því að raunverulegur ágreiningur getur verið um túlkun undirliggjandi skattheimildar í lögum. Þannig getur t.d. lagatúlkun sem kemur fyrst fram hjá Hæstarétti staðfest að hærri fjárhæð hefði átt að telja fram áratug fyrr. Af því leiðir að umdeilt og óskýrt lagaákvæði getur ekki aðeins leitt til þess að viðkomandi þarf að greiða skatta með álagi og dráttarvöxtum heldur verður dómari lögum samkvæmt einnig að leggja á hann þungar refsingar til viðbótar.
Í öðru lagi er málsmeðferðin sjálf margendurtekin á stjórnsýslustigi. Hún er því lengri í sniðum en aðrar refsimeðferðir gagnvart einstaklingum sem enda fyrir íslenskum dómstólum. Þetta er ólíkt því sem gerist í nágrannalöndum okkar þar sem slík meðferð skattamála fer eingöngu fram á tveimur stjórnsýslustigum áður en kemur til kasta dómstóla. Fyrirkomulagið hérlendis veldur augljósum töfum og kostnaði fyrir alla, hvort heldur er fyrir ríkissjóð eða sakborninga, auk þess að vekja áleitnar spurningar um brot á mannréttindum. Þeim spurningum hefur reyndar ítrekað verið svarað með áfellisdómum Mannréttindadómstóls Evrópu yfir íslenska ríkinu. Þeir dómar og viðbrögð íslenska ríkisins við þeim er hins vegar efni í aðra grein.
Í þriðja lagi eru sektarviðurlög sem lágmarksrefsing svo harkaleg að veruleg hætta er á að fólk verði gjaldþrota og lendi að lokum í skuldafangelsi vegna þess að það getur ekki greitt sektina og annan dæmdan sakarkostnað. Dómari hefur ekki lagaheimild til að færa sektir undir lágmarkið sem er tvöfaldur vanframtalinn skattstofn. Svona er þessu háttað jafnvel þó sannað þyki að ákærði hafi aldrei ætlað að draga neitt undan skatti og að það hafi í raun ekki verið ákærða að kenna að ekki var réttur skattur greiddur.
Tilbúin dæmi
Tökum tilbúin dæmi um skattaðila A og B sem þó endurspegla raunveruleikann vel.
Aðili A á að baki langa sögu um misheppnuð viðskiptaævintýri sem ítrekað hafa endað með ósköpum. A stundar kennitöluflakk en er þó enn með hreint sakarvottorð. A setur á fót fyrirtæki í ferðaþjónustu. Hann tekur staðgreiðslu af starfsfólki sínu en skilar bara hluta og notar afganginn til einkanota. Samtals skýtur A þannig 30 milljónum króna undan skattskilum. Þetta kemst upp og fer málið tiltölulega fljótt í gegnum kerfið enda lítið sem A vill láta á reyna í vörnum sínum. Þremur árum síðar er hann dæmdur í héraði í eins árs skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 90 milljón króna sektar og sakarkostnaðar upp á 2 milljónir króna. Við ákvörðun sektargreiðslu fór héraðsdómari upp fyrir lágmarkið og sektin höfð þreföld vanframtalin fjárhæð. A áfrýjar ekki niðurstöðunni. Ekkert fæst upp í sektir og sakarkostnað og fer hann í 9 mánaða skuldafangelsi.
Þá er sögunni vikið að B en hann er þannig sinnaður að hann vill greiða meiri skatta en minni og styðja við samfélagssjóði eins og unnt er. Með dugnaði og úrræðasemi tekst honum að ná langt á sviði alþjóðlegrar kvikmyndagerðar. Mannorð hans og hugsjónir skipta miklu máli. B ræður sér því færustu sérfræðinga til að sjá um bókhald sitt og ráðleggingar um skattlagningu. Hann gætir þess að allar viðskiptaupplýsingar séu á þeirra borðum. Eitt árið telur Skatturinn að miðað við túlkun tiltekins lagaákvæðis þá vanti 30 milljónir króna upp á réttar skattgreiðslur hjá B. Ráðgjafar B útskýra að þeir hafi aldrei heyrt um þennan skilning Skattsins á lögunum og hafi hreinlega ekki dottið sá skilningur í hug. Skatturinn kærir málið til Skattrannsóknarstjóra. Þannig fer málið sína leið og Hæstiréttur staðfestir að lokum skilning Skattsins átta árum síðar. Er B þá dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi auk 60 milljóna króna sektar, sakarkostnað upp á 18 milljónir króna og átta mánaða fangelsi ef sekt og sakarkostnaður greiðist ekki. Þegar dómur Hæstaréttar er loks upp kveðinn er B þannig staddur fjárhagslega að hann getur ekki greitt alla skuldina, verður gjaldþrota, sætir þá vararefsingunni og fer í skuldafangelsi.
Munur er á refsingum í þessum tveimur málum en í raun er niðurstaðan fyrir B verri en fyrir A. Skiptir þar mestu að ekkert svigrúm er til staðar þegar kemur að mati á saknæmi og sektargreiðsla er að lágmarki svo há að vart verður við ráðið. Einnig er ljóst að ef gripið er til varna þá hleypur sakarkostnaður upp úr öllu valdi. Þá stóð B í þessari baráttu í átta ár, þar af fimm ár bara á stjórnsýslustigi, og sá langi tími og sá mikli kostnaður sem í málsmeðferðina fór varð honum einfaldlega ofviða.
Hverjir „lenda í“ skattsvikamálum?
Staða og áhætta starfsfólks eins og Alþingismanna, dómara og almennra launþega hvað skattskil varðar er allt önnur en þeirra sem afla sér viðurværis með sjálfstæðum atvinnurekstri eða eru stjórnendur fyrirtækja. Það er nánast vonlaust fyrir launþega að telja tekjur sínar vitlaust fram svo einhverju máli skipti og slíkir aðilar telja varla fram sjálfir lengur vegna sjálfvirkni við framtalsgerð. Áhætta þessa hóps á því að lenda í skattsvikamálum er því nánast engin og það alveg óháð laga- eða siðferðisvitund. Launþegum kann því að skorta skilning á vanda þeirra sem eru sjálfstætt starfandi og þurfa að telja fram tekjur sínar nákvæmlega óháð því hversu óljósar reglur eru í lögum á hverjum tíma og hvernig leiðbeiningum skattyfirvalda er háttað.
Fjárhæð sem refsiskilyrði
Óháð eiginlegri sök er í raun ekkert svigrúm fyrir mistök þegar upphæðir hlaupa á milljónum króna. Þannig ber skattaðili refsiábyrgð á röngum skattskilum sem getur leitt til fangelsisvistar og sektar, jafnvel þó um eiginlega sök hans sjálfs sé ekki að ræða. Þar að auki er líklegt að viðkomandi þurfi að greiða dráttarvexti og skatt á álag sem ríkisskattstjóri kann að hafa lagt á vanframtalinn skattstofn á stjórnsýslustigi.
Sem fyrr segir er í tekjuskattslögum þó gerð krafa um að viðkomandi hafi af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi talið rangt fram svo hægt sé að refsa honum. Ekkert er þar rætt um fjárhæðir í þessu samhengi. Fyrirfram, og af lestri lagákvæðanna eingöngu, mætti því ætla að ákæruvaldið geti átt í erfiðleikum þegar kemur að því að sanna að saknæmisskilyrði séu uppfyllt. Það er hins vegar ekki tilfellið því í dómaframkvæmd hefur ákæruvaldið í raun ekki þurft að sanna neitt þegar kemur að saknæmi. Ábyrgðin er í raun alveg hlutlæg, þ.e. óháð sök og upphæðin sjálf talin fullnægja matinu um stórkostlegt gáleysi ákærða – með þeirri þröngu undantekningu sem greinir hér á eftir. Þetta hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir alla sem hafa áhuga á mannréttindum.
Ljós í myrkri
Eitthvað hefur þó rofað til í þessum málum á undanförnum árum.
Í fyrsta lagi lagaði Alþingi refsilágmarkið vegna virðisaukaskatts. Þannig getur dómari farið undir refsilágmarkið í virðisaukaskattsmálum ef viðkomandi skilaði inn réttum virðisaukaskattsskýrslum og stóð „[...] skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar.“ En einhverra hluta vegna þá hafa ekki verið gerðar sambærilegar undantekningar á lágmarksrefsingu vegna brota á tekjuskatts- eða tollalögum.
Í öðru lagi hefur Hæstiréttur, sem og aðrir dómstólar, vikið frá fyrri fordæmum um hlutlæga ábyrgð stjórnarmanna félaga og litið í auknum mæli til verkaskiptingar stjórnarmanna þegar lagt er mat á saknæmi þeirra í tengslum við vanskil á sköttum og opinberum gjöldum í rekstri félaganna. Þannig telur Hæstiréttur nú að þeir stjórnarmenn sem sannarlega hafa ekkert komið að stjórnun félaganna, þ.m.t. bókhaldi og skattskilum félagana, þrátt fyrir að vera skráðir formlega í stjórn, verði mögulega ekki ákvörðuð refsing vegna brota félagsins þar sem háttsemi þeirra er ekki talin saknæm. Í slíkum málum var áður fyrr lagt til grundvallar að nægilegt væri að viðkomandi væri skráður í stjórn félags til þess að um stórkostlegt gáleysi væri að ræða og þar með refsiverða hegðun að ræða, algjörlega óháð því hvort ásetningur eða stórkostleg gáleysi hefði verið sannað um vilja hins skráða stjórnarmanns til þess að fremja brot á skattalögum. Framangreind þróun virðist hafa átt sér stað hjá Hæstarétti í kjölfar gagnrýni á fyrri dómaframkvæmd á þessu sviði. Breytingarnar má með öðrum orðum ekki rekja til breyttrar löggjafar frá Alþingi. Hvernig slíkt samrýmist grundvallarreglu stjórnskipunarréttar um þrígreiningu ríkisvaldsins er sjálfstætt álitamál og fellur utan efnis þessarar greinar.
Lokaorð
Ef sjálfstætt starfandi aðila, eða stjórnanda atvinnufyrirtækis, skrikar fótur á skattasvellinu getur viðkomandi misst allar sínar eigur án raunverulegrar sakar, þ.e. án þess að hafa nokkurn tíma ætlað að brjóta gegn skattalögum af ásetningi eða stórfelldu gáleysi heldur jafnvel lagt sig fram við að telja rétt fram. Til að bíta höfuðið af skömminni þá getur sá hinn sami endað í skuldafangelsi vegna sama „brots“. Það hljóta flestir að sjá að þetta er óásættanlegt í nútímasamfélagi.
Eðlilegt er að ábyrgð á réttum skattgreiðslum, eins og þær eru skilgreindar í lögum, skuli ávallt liggja hjá skattþegninum. Of langt er hins vegar gengið þegar þungar refsingar grundvallast í raun líka á sömu hlutlægu sjónarmiðunum. Við ákvörðun refsinga verður að gera kröfu til þess að sjálfstætt sakarmat eigi sér ávallt stað í samræmi við meginreglur refsiréttarins.
Gera þarf lagabreytingar til að laga þetta sem fyrst.