Samræming reglna um sértryggð skuldabréf

Markaðurinn hjá Fréttablaðinu birti í dag grein eftir Frey Snæbjörnsson lögmann og Jónas Má Torfason laganema á LOGOS.

Höfundur: Freyr Snæbjörnsson
Abstakt mynd

Útgáfa sértryggðra skuldabréfa (e. Covered bonds, d. realkreditobligationer) hefur verið vinsæl í Evrópu allt frá síðustu áratugum 18. aldar og hefur í kjölfar efnahagshrunsins rutt sér rúms meðal bandarískra og asískra fjármálafyrirtækja. Skuldabréfin gera útgefendum kleift að fjármagna sig með ódýrum hætti til langs tíma og er öflugt tól fyrir lánastofnanir til að draga úr vaxtaáhættu af útlánum.

Í ljósi þróunar og vaxandi vinsælda sértryggðra skuldabréfa lagði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fram tillögu að samræmdu regluverki um sértryggð skuldabréf sem þegar hefur hlotið samþykki Evrópuþingsins. Slíkri samræmingu er m.a. ætlað að auðvelda markaðssetningu sértryggðra skuldabréfa á milli ríkja innan Evrópu og samræma þær fjármálaafurðir sem fá ívilnandi meðferð við útreikning eiginfjárhlutfalls.

Lítil breyting á kröfum til útgefanda

Evrópuregluverkið um sértryggð skuldabréf byggir á löggjöf þeirra ríkja sem hafa verið framarlega í útgáfu sértryggðra skuldabréfa, en Danmörk og Svíþjóð eru meðal þeirra fimm þjóða sem nýta þessa fjármálaafurð hvað helst. Íslensk lög um sértryggð skuldabréf voru byggð á sænskri löggjöf um sama efni. Af þessu leiðir að mjög stutt er á milli gildandi íslenskrar löggjafar og hins nýja Evrópuregluverks.

Það verður því takmörkuð breyting á þeim kröfum sem gerðar eru til sértryggðra skuldabréfa að íslenskum lögum með tilkomu hins nýja regluverks. Helstu breytingar sem verða hér á landi með hinu nýja regluverki er að skuldabréfin munu þurfa að vera tryggð að fullu en ekki er gerður áskilnaður um sérstakt tryggingahlutfall í íslenskum lögum. Jafnframt þarf að tryggja nægjanlegt fjárstreymi af bréfunum fyrir 180 daga að hverju sinni.

Kröfur hins evrópska regluverks um hverjir mega vera útgefendur sértryggðra skuldabréfa mun hafa takmörkuð áhrif á íslenska útgefendur sem og kröfur til tryggingasafnsins, þar sem íslensk lög gera að þessu leyti strangari kröfur en hið nýja Evrópuregluverk.

Breytingar á eiginfjárreglum

Í lögum eru gerðar ítarlegar og strangar kröfur til eiginfjárhlutfalls fjármálafyrirtækja. Þær kröfur eiga rætur að rekja til Evrópureglna, þ.e. CRD IV og CRR. Vegna þess að sértryggð skuldabréf eru almennt talin sérstaklega örugg fjárfesting hafa þau fengið ívilnandi meðferð við útreikning eiginfjárhlutfalls, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Hingað til hefur þó ekki verið fyllilega samræmt innan Evrópu hvaða kröfur sértryggð skuldabréf þurfa að uppfylla til að njóta slíkrar ívilnandi meðferðar, sem leiðir af skorti á samræmdri skilgreiningu á hugtakinu sértryggð skuldabréf. Aðildarríkjum hefur hingað til að stórum hluta verið eftirlátið að kveða á um hvað telst sértryggt skuldabréf.

Hið nýja regluverk mun taka á þessu með því að samræma skilgreiningu á hugtakinu sértryggð skuldabréf, sem vísað verður til í CRR. Jafnframt verða þar gerðar ákveðnar viðbótarkröfur til sértryggða skuldabréfa til að þau fái notið ívilnandi meðferðar samkvæmt CRR við útreikning eiginfjárhlutfalls.

Sameiginleg útgáfa sértryggðra skuldabréfa

Nýmæli í regluverkinu er að útgefendur sértryggðra skuldabréfa geta sameiginlega sett saman tryggingasafn og gefið út sértryggð skuldabréf. Í þessu felast eflaust tækifæri fyrir íslensk fjármálafyrirtæki sem á evrópskan mælikvarða teljast fremur smá.

Kostnaðurinn af útgáfu sértryggðra skuldabréfa er framanaf nokkuð mikill. Fjöldi þeirra skuldabréfa sem mynda saman undirliggjandi tryggingasafn hefur jafnframt áhrif á fjárflæði, sem er eftirsóknarvert á markaði fyrir sértryggð skuldabréf. Stærðarhagkvæmni skiptir því umtalsverðu við útgáfu skuldabréfanna.

Þess vegna er útgefendum heimilað að mynda saman tryggingasafn fyrir útgáfu sértryggðra skuldabréfa, en það mun lækka fjármögnunarkostnað og gera viðkomandi fyrirtækjum kleift að taka í auknum mæli þátt í sívaxandi markaði fyrir þessa tilteknu fjármálaafurð.

Evrópustimpill

Hið nýja regluverk gerir þá kröfu að aðeins sértryggð skuldabréf sem uppfylla skilyrði innlendrar löggjafar sem innleiða hið nýja regluverk séu merkt sem European Covered Bond, ásamt þýðingu á því hugtaki. Jafnframt að einungis þau skuldabréf sem uppfylli skilyrði þess að fá ívilnandi meðferð samkvæmt CRR séu merkt sem European Covered Bond (Premium), ásamt þýðingu.

Fjárfestar munu þá geta gengið að því sem vísu að þau skuldabréf sem merkt eru með fyrri stimplinum uppfylli skilyrði Evrópuregluverksins um sértryggð skuldabréf og þau sem merkt eru með hinum síðarnefnda uppfylli öll skilyrði til að njóta ívilnandi meðferðar við útreikning á eiginfjárgrunni samkvæmt CRR. Miðar þetta að því að einfalda og auðvelda markaðssetningu sértryggða skuldbréfa innan Evrópu.

Innleiðing regluverksins á Íslandi

Á grundvelli aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið ber Íslandi að taka upp hið nýja Evrópuregluverk um sértryggð skuldabréf. Það ferli getur tekið árum að ljúka, sérstaklega ef ekki liggur sérstaklega á innleiðingu að mati íslenskra stjórnvalda.

Þar til regluverkið hefur verið innleitt að íslenskum rétti munu íslensk fyrirtæki að nokkru leyti standa höllum fæti miðað við fyrirtæki í ríkjum þar sem innleiðingu er lokið. Þeim verður til dæmis ekki heimilt að merkja skuldabréf sín með fyrrnefndum Evrópustimplum fyrr en hið nýja regluverk hefur verið innleitt í íslenskan rétt, sem aftur gæti haft áhrif á markaðssetningu þeirra innan Evrópu.

Eins og stendur er þó ekkert því til fyrirstöðu að íslenskir útgefendur fari að búa sig undir breytt regluverk og aðlaga sig að því. Með samræmingu á hinum evrópska markaði fyrir sértryggð skuldabréf, sem er sá stærsti í heimi, er fyrirsjáanlegt að fjármálafyrirtæki utan Evrópska efnahagssvæðisins munu í auknum mæli fjárfesta í evrópskum sértryggðum skuldabréfum og markaðssetja sín eigin í álfunni. Íslensk fjármálafyrirtæki eru í kjöraðstæðum til að nýta sér þau tækifæri sem þar felast.

Sérfræðingarnir okkar