LOGOS og Lagaviti í samstarf

Lagaviti tilkynnir með miklu stolti og ánægju að félagið hefur nú undirritað samstarfssamning við LOGOS, stærstu lögmannsstofu landsins, um áframhaldandi þróun gervigreindarhugbúnaðarlausnar Lagavita.

Lagaviti vinnur að þróun gervigreindarhugbúnaðarlausnar, sem hönnuð er af lögfræðingum fyrir lögfræðinga (www.lagaviti.is). Markmiðið er að búa til lausn sem skilar lögfræðilega tækri röksemdafærslu í formi vinnuskjals sem notandinn óskar eftir og stóreykur þannig skilvirkni í lögfræðistörfum. Lagaviti leggur áherslu á þrjú atriði:

Gæði. Lagaviti greinir lögfræðileg álitaefni, tekur saman viðeigandi réttarheimildir og beitir lögfræðilegri aðferðafræði. Gæði úrlausna verða slík að þau munu leiða til raunverulegrar og verulegrar skilvirkni í störfum lögfræðinga.

Öryggi. Lagaviti mun uppfylla allar þær öryggiskröfur sem þörf er á til að tryggja lögfræðingum örugga notkun lausnarinnar.

Notendaupplifun. Lagaviti tekur mið af því verklagi og vinnuumhverfi sem lögfræðingar eru vanir svo að lausnin nýtist sem best í störfum þeirra og spari óþarfa handavinnu.

Meginmarkmið LOGOS er að veita viðskiptavinum sínum þjónustu í hæsta gæðaflokki, sem byggir á mikilli reynslu og þekkingu innan stofunnar. Lagaviti mun auðvelda LOGOS að nýta þá reynslu og þekkingu sem orðið hefur til í gegnum árin og þannig leiða til aukinnar skilvirkni við grunn- og undirbúningsvinnu lögfræðilegra verkefna og skila verðmætari lausnum til viðskiptavina stofunnar.

Jóhannes Eiríksson, framkvæmdastjóri Lagavita: „Við munum leggja okkur alla fram um að standa undir því trausti sem LOGOS hefur sýnt okkur með áherslu á gæði röksemda og úrlausna, öryggi gagna og góða notendaupplifun – allt með það að markmiði að lögmenn stofunnar geti einbeitt sér að hinni raunverulegu lögfræðilegu vinnu og látið Lagavita um annað sem henni fylgir.”

Benedikt Egill Árnason, framkvæmdastjóri LOGOS: „Sögu LOGOS má rekja allt aftur til ársins 1907, þegar Sveinn Björnsson, síðar fyrsti forseti lýðveldisins, stofnaði fyrstu lögmannsstofuna hér á landi. Á þeim rúmlega 100 árum hefur safnast upp dýrmæt þekking, gögn og reynsla. Með lausn Lagavita og nýtingu gervigreindar sjáum við tækifæri til að nýta þessi verðmæti enn betur í þágu okkar viðskiptavina.