Lög um vernd uppljóstrara

Fréttablaðið birti á miðvikudag samantekt Helgu Melkorku Óttarsdóttur eiganda og Jónasar Más Torfasonar laganema á LOGOS um heildarlög um vernd uppljóstrara sem Alþingi samþykkti þann 12. maí sl.

Höfundur: Helga Melkorka Óttarsdóttir
Réttlætisgyðjan

Þann 12. maí síðastliðinn samþykkti Alþingi heildarlög um vernd uppljóstrara. Löggjöfin tekur saman á einum stað þá vernd sem uppljóstrarar (e. whistleblowers) njóta fyrir að deila upplýsingum um ólöglega eða ámælisverða háttsemi vinnuveitanda.

Hinni nýju löggjöf er ætlað að færa þessa vernd út með almennum hætti. Nær hún hvorutveggja til starfsmanna í einkageiranum og til opinberra starfsmanna. Í tilfelli þeirra síðarnefndu er jafnframt lögbundin skylda til uppljóstrunar.

Vernd uppljóstrara

Vernd uppljóstrara er tvíþætt. Annars vegar telst það ekki brot á þagnar- eða trúnaðarskyldu sem starfsmaðurinn er bundinn að ljóstra upp um ámælisverða háttsemi vinnuveitandans. Gildir það hvort sem slík trúnaðarskylda er lögð á starfsmanninn samkvæmt lögum eða samkvæmt samningi. Hefur slík miðlun upplýsinga hvorki refsi- né skaðabótaábyrgð í för með sér. Uppljóstrunin getur heldur ekki leitt til stjórnsýsluviðurlaga eða til íþyngjandi úrræða að starfsmannarétti, svo sem uppsagnar.

Hins vegar felst í verndinni að tryggja að vinnuveitandi láti ekki starfsmann sinn gjalda fyrir lögmæta uppljóstrun. Rætt er um óréttláta meðferð, en í henni felst t.a.m. að rýra réttindi, breyta starfsskyldum á íþyngjandi hátt eða brottrekstur úr starfi. Ef viðkomandi starfsmanni tekst að leiða líkur á því að hann hafi sætt óréttlátri meðferð fellur það í skaut vinnuveitandans að sanna að ákvörðun sé ekki vegna uppljóstrunarinnar. Ber vinnuveitandanum að greiða bætur fyrir það tjón sem hann veldur með óréttlátri meðferð, bæði vegna fjártjóns og miska, takist sú sönnun ekki.

Skilyrði verndar

Vernd samkvæmt lögunum tekur til þess þegar starfsmaður greinir frá upplýsingum í góðri trú, um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi, í starfsemi vinnuveitanda. Þá er jafnframt gerður greinarmunur á svokallaðari innri uppljóstrun og á ytri uppljóstrun.

Með innri uppljóstrun er átt við að upplýsingum sé miðlað innan viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar, s.s. til næsta yfirmanns, eða til annarra sem stuðlað geti að því að látið verði af háttseminni sem um ræðir. Dæmi um hið síðarnefnda væri miðlun upplýsinga til lögreglu eða annarra eftirlitsaðila, t.d. til Vinnueftirlitsins.

Það telst ytri uppljóstrun þegar starfsmaður miðlar upplýsingum til utanaðkomandi aðila, s.s. fjölmiðla. Ytri uppljóstrun nýtur ekki verndar laganna nema innri uppljóstrun hafi fyrst verið reynd án fullnægjandi viðbragða og að starfsmaðurinn hafi haft ástæðu til að ætla að umrædd háttsemi gæti varðað fangelsisrefsingu. Í algjörum undantekningartilvikum er ytri uppljóstrun heimil án þess að innri uppljóstrun hafi áður farið fram.

Starfsmaður samkvæmt lögunum telst hver sá sem hefur aðgang að upplýsingum eða gögnum um starfsemi vinnuveitanda vegna hlutverks síns. Lögin taka bæði til ráðinna starfsmanna og annarra sem starfa fyrir viðkomandi vinnuveitanda, s.s. verktaka eða starfsnema. Uppljóstrun sem nýtur verndar laganna tekur aðeins til starfsemi vinnuveitanda. Þannig væri lögmanni eða presti einungis heimilt að ljóstra upp um ámælisverða háttsemi vinnuveitanda síns, en ekki ámælisverða háttsemi sinna skjólstæðinga.

Þá er það skilyrði verndar að upplýsingum sé miðlað í góðri trú. Með því er átt við að starfsmaður hafi haft góða ástæðu til að telja upplýsingarnar réttar, að það hafi verið í þágu almennings að miðla þeim og að viðkomandi starfsmaður hafi ekki átt annarra kosta völ til að koma í veg fyrir ámælisverða háttsemi. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur skýrt hugtakið svo að miðlun upplýsinga vegna persónulegrar óvildar eða metnaðar starfsmanns eigi ekki að njóta verndar. Breytingin var gerð til þess að það lægi skýrt fyrir að góðmennska uppljóstrarans sé verndinni óviðkomandi.

Skilyrðið um góða trú á að koma í veg fyrir að miðlun upplýsinga sem á ekkert erindi við aðra njóti verndar. Jafnframt felst í skilyrðinu afsláttur af kröfum til uppljóstrara. Þannig er það ekki skilyrði verndar að upplýsingar sem miðlað er séu raunverulega réttar eða varði raunverulega ámælisverða háttsemi eða lögbrot. Einungis er gerð krafa um að viðkomandi starfsmaður hefði mátt telja að upplýsingarnar væru áreiðanlegar og að þær varði ámælisverða háttsemi.

Verklag á vinnustöðum

Í fyrirtækjum og á öðrum vinnustöðum þar sem starfa 50 eða fleiri starfsmenn er skylda að setja reglur um verklag við uppljóstrun starfsmanna. Skulu þær vera skriflegar og þar skal kveða á um móttöku, meðhöndlun og afgreiðslu tilkynninga um hugsanleg lögbrot eða ámælisverða háttsemi. Jafnframt er Vinnueftirlitinu gert að útbúa fyrirmynd að verklagsreglum sem fyrirtæki á almennum markaði geta lagt til grundvallar og eftir atvikum breytt eftir eigin þörfum.

Meginefni laganna tekur gildi þann 1. janúar 2021, og því ætti svigrúm til innleiðingar á verklagi að vera fullnægjandi.

Sérfræðingarnir okkar