Skilmálar í viðskiptum með fyrirtæki eru háðir sífelldum breytingum og þróun eftir löndum og markaðsaðstæðum hverju sinni. Ein áhugaverðasta þróunin í þeim efnum undanfarin ár er tilkoma vátrygginga gegn bótakröfum kaupenda á hendur seljenda (e. warranty & indemnity insurance).
Seljendur undirgangast almennt samningsskilmála sem tilgreina ítarlega hvað þeir ábyrgjast gagnvart kaupendum um ástand hins selda fyrirtækis við samningsgerð eða afhendingu (e. warranty). Í sumum tilvikum lofa seljendur einnig kaupendum skaðleysi gagnvart tilgreindum þekktum áhættum sem þeir skulu bera ábyrgð á ef slíkar áhættur raungerast eftir samningsgerð, óháð þekkingu kaupenda (e. indemnity).
Oftar en ekki reynir mikið á ofangreinda skilmála við samningsgerð þar sem aðilar reyna eftir fremsta megni að stilla sinni áhættu í hóf og eftir atvikum færa áhættur yfir til gagnaðila. Úttekt kaupenda á hinu selda fyrirtæki (e. due diligence) ber þess merki og gengur að stórum hluta út á að leitast við að greina og meta áhættur við kaupin sem svo eru meðhöndlaðar í kaupsamningi.
Eðli máls samkvæmt vilja kaupendur hafa eins mikið öryggi og unnt er fyrir því að það sem er keypt sé eins og því var lýst af seljanda. Með sama hætti vilja seljendur almennt takmarka áhættu af sölunni eins og kostur er. Í stærri viðskiptum er eðli seljenda oft þannig að um er að ræða sjóði sem eru leystir upp fljótlega eftir söluna eða samsetning hluthafahóps er þannig háttað að erfitt er um vik að koma á framfæri kröfum á hendur hverjum og einum seljanda eftir kaup. Hið sama á við ef um er að ræða fjárhagslega óstöðuga seljendur eða jafnvel þrotabú. Afleiðing þessa er að í stærri viðskiptum er nú orðið algengara en ekki að vátryggingafélög taka að sér að bera áhættuna af því að kröfur raungerist á hendur seljendum.
Ávinningur af slíkum vátryggingum er margþættur, bæði fyrir kaupendur og seljendur. Samningsgerð um skilmála kaupa verður einfaldari þar sem seljendur vita að þeir geta fengið tryggingu gegn hugsanlegum kröfum. Kaupendur eru oft áfram í samningssambandi við seljendur, t.d. ef hluti seljenda eru stjórnendur hins selda fyrirtækis og halda þeirri stöðu eftir viðskiptin. Við slíkar kringumstæður kynni að vera óheppilegt fyrir kaupendur að setja fram kröfu gegn stjórnendum þar sem þeir eru á sama tíma háðir um framtíðarrekstur fyrirtækisins. Þá eru margir seljendur einfaldlega ófærir um að gefa ábyrgðir eða skaðleysisyfirlýsingar til lengri tíma þar sem þeir þurfa að slíta sínum sjóðum eins og kom fram hér að ofan. Þá hafa kaupendur hag af því að geta beint kröfum sínum til eins aðila, vátryggingafélags, í stað þess að þurfa jafnvel að beina kröfum sínum hlutfallslega gegn fjölda hluthafa víðs vegar um heim með tilheyrandi kostnaði og flækjustigi við fullnustu. Þá hefur tilkoma vátrygginga m.a. leitt til þess að æ sjalgæfara er að kaupendur geri kröfu um að hluta kaupverðs sé haldið eftir eða það lagt inn á sérstakan vörslureikning (e. escrow), með tilheyrandi hagræði fyrir seljendur sem geta þá ráðstafað öllu kaupverði frá móttöku.
Víðast um heim eru stærri fyrirtæki oftast seld í gegnum söluferli þar sem kaupendum frá fjölda landa er boðið að gera tilboð í viðkomandi fyrirtæki. Slíkir ferlar eru orðnir mjög staðlaðir og er vinnuferlið í slíkum viðskiptum þekkt um allan heim. Sem hluti af slíkum hefðbundnum ferlum er nú orðið algengara en ekki, að þegar drög að samningi um kaup á fyrirtæki liggja fyrir og þeim hefur verið dreift til líklegra kaupenda, þá hafi seljendur þegar aflað tilboðs í þær vátryggingar sem ætlað er að mæta hugsanlegum kröfum. Gerir það samningsgerð mun einfaldari og hraðari.
Eins og algengt er með þróun í milliríkjaviðskiptum hófst þessi þróun í Bandaríkjunum í kringum síðustu aldamót og dreifðist í kjölfarið yfir til London og víðar. Á Norðurlöndunum hefur þessi þróun gengið hratt á síðustu árum og er nú orðin ráðandi í sölum á stórum og millistórum fyrirtækjum. Vátryggingamiðlarar og vátryggingafyrirtæki á Norðurlöndum bjóða nú upp á þessa þjónustu með afar skilvirkum hætti. Undanfarin ár hafa iðgjöld farið lækkandi þar sem tryggingar eru orðnar nokkuð staðlaðar og samkeppni hefur aukist á milli vátryggingafyrirtækja. Kostnaður við vátryggingu ræðst eðlilega af áhættumati vátryggingafélagsins. Í grunninn er kostnaðurinn tvíþættur, annars vegar kostnaður vátryggingafélagsins af úttekt á fyrirtæki og undirliggjandi áhættu, sem er algengt að sé á milli 20.000 til 150.000 evrur, og svo iðgjaldið sjálft, sem er algengt að sé á bilinu 1-3% af verðmæti viðskiptanna.
Í London eru yfir 90% vátrygginga af þessu tagi gefin út til kaupenda þar sem það einfaldar kröfugerð ef á reynir. Það veltur hins vegar á aðstæðum hverju sinni hvort seljendur eða kaupendur beri kostnaðinn af vátryggingunni.
Á Íslandi eru nú þegar nokkur dæmi þess að fyrirtæki hafi verið seld með þeim vátryggingum sem hér um ræðir. Þau dæmi eru þó fá enn sem komið er og í flestum tilvikum hafa þetta verið stór viðskipti með fyrirtæki sem hafa sterkar erlendar tengingar eða kaupendur og/eða seljendur hafa verið erlendir aðilar. Þó eru allar líkur á að þessi háttur verði ráðandi við sölu stærri íslenskra fyrirtækja í náinni framtíð, sérstaklega þegar erlendir aðilar eru hugsanlegir kaupendur eða með stærri hluthöfum í hinu selda fyrirtæki.