Um miðjan mars síðastliðinn féll dómur Evrópudómstólsins í svokölluðu Towercast máli. Þar viðurkenndi dómurinn rétt samkeppnisyfirvalda og dómstóla til að véfengja samruna og yfirtökur markaðsráðandi fyrirtækja á grundvelli reglna um misnotkun á markaðsráðandi stöðu, jafnvel þó ekki sé um tilkynningarskylda samruna að ræða á grundvelli samkeppnisreglna ESB réttar eða aðildarríkja.
Í málinu hafði tiltekið markaðsráðandi fjarskiptafyrirtæki í Frakklandi keypt allt hlutafé í smærri keppinaut. Samruninn var ekki tilkynningarskyldur á grundvelli þarlendra samkeppnisreglna. Towercast, keppinautur samrunaaðila, kvartaði undan viðskiptunum til samkeppnisyfirvalda þar sem því var haldið fram að samruninn styrkti markaðsráðandi stöðu keppinautarins. Þegar samkeppnisyfirvöld höfnuðu að taka málið til meðferðar ákvað félagið að fara dómstólaleiðina með þeim afleiðingum að Evrópudómstóllinn staðfesti að í kaupum á minni keppinaut, jafnvel undir veltumörkum samrunareglna, geti falist misnotkun á markaðsráðandi stöðu.
Með hliðsjón af framangreindu er Samkeppniseftirlitinu hér á landi heimilt að taka til skoðunar kaup markaðsráðandi fyrirtækja á smærri fyrirtækjum á grundvelli 11. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Á það sama við ef keyptur er hluti úr fyrirtækjum eða eignir keppinauta.