Sýndareignir (e. crypto-assets) hafa verið nokkuð í umræðunni upp á síðkastið í tengslum við miklar hækkanir á verðmæti rafmyntarinnar Bitcoin. Þeir sem til þekkja minnast sambærilegra hækkana í kringum áramótin 2017-2018 og svo mikilla lækkana í kjölfarið. Stóraukinn áhuga almennings á slíkum sýndareignum má greina í hvert sinn sem fréttir berast af öfgakenndum hækkunum þeirra.
Hvað eru sýndareignir?
Í því regluverki sem nánar verður vikið að hér hefur hugtakið sýndareignir verið skilgreint sem stafrænt form verðmæta eða réttinda sem unnt er að framselja og varðveita rafrænt og styðjast við dreifðar færsluskrár (e. distributed ledger technology, DLT) eða sambærilega tækni. Svokallaðar bálkakeðjur (e. blockchain), sem margir hafa eflaust heyrt minnst á, er ein tegund DLT en Bitcoin og ýmsar aðrar rafmyntir eru gefnar út á bálkakeðjum.
Mikilvægi þessarar DLT tækni er þó vitaskuld ekki bundin við slíkar rafmyntir. Með henni er mögulegt að varðveita upplýsingar, t.d. um viðskipti, greiðslur og þjónustu, með ómiðlægum en þó afar öruggum hætti. Vonir standa til þess að DLT verði grundvöllur nýsköpunar og breytinga innan alþjóðlega fjármálakerfisins, m.a. við framkvæmd greiðslna og viðskipta.
Sýndareignum er almennt skipt í þrjá megin flokka, sem löggjöf innan Evrópu tekur að nokkru mið af:
Verðbréfaeiningar (e. security tokens). Þetta eru sýndareignir sem gefa til kynna eignarhlutdeild í verðmæti tiltekinnar eignar eða réttindi skv. skuldarsambandi. Hér undir kunna að falla ýmiss konar fjármálagerningar, s.s. hlutabréf og skuldabréf, sem gefnir eru út á grundvelli DLT.
Greiðslueiningar (e. payment tokens). Um er að ræða sýndareignir sem fyrst og fremst eru ætlaðar til notkunar sem greiðsla og til varðveislu eða mælingar verðmæta en eru ekki tryggðar af miðlægum aðila, s.s. seðlabanka. Rafmyntir eins og Bitcoin, sem í íslensku lagamáli kallast sýndarfé (e. crypto-currencies), myndu almennt falla hér undir.
Þjónustueiningar (e. utility tokens). Þetta eru sýndareignir sem veita handhafa rétt til tiltekinnar vöru eða þjónustu með notkun DLT. Hér undir myndi eflaust falla það sem í íslensku lagamáli kallast innlausnarbréf. Til innlausnarbréfa hafa m.a. verið talin ýmiss konar aðgöngumiðar eða farseðlar.
Meta þarf hverju sinni í hvaða flokk sýndareign fellur. Þetta kann að vera vandkvæðum háð. Sem dæmi byggja málaferli bandarísku verðbréfaeftirlitsstofnunarinnar (SEC) gegn Ripple, útgefanda rafmyntarinnar XRP, á að rafmyntin eigi að flokkast sem verðbréf.
Samevrópskt regluverk um sýndareignir
Nýlega var lögð fram tillaga að samevrópsku regluverki sem ætlað er að ná með heildstæðum hætti utan um sýndareignir innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Þetta regluverk myndar hryggjarstykkið í nýlegri áætlun framkvæmdastjórnar ESB um stafræn fjármál (Digital Finance Strategy). Er hinu nýja regluverki ætlað að (i) eyða lagalegri óvissu um sýndareignir, (ii) styðja við nýsköpun sem byggir á DLT, (iii) vernda fjárfesta og heilindi markaða með sýndareignir, t.d. með banni við innherjasvikum og markaðsmisnotkun, og (iv) tryggja stöðugleika fjármálakerfisins í heild sinni.
Rétt er að vekja athygli á að umræddar tillögur eru að mestu settar fram í formi reglugerða. Þær hafa bein réttaráhrif innan aðildarríkja ESB en hafa verið teknar upp óbreyttar hér á landi með sk. tilvísunaraðferð. Gefur þetta til kynna vilja framkvæmdastjórnarinnar til að koma við hámarkssamræmingu á reglum um sýndareignir innan EES.
Gildandi löggjöf á fjármálamarkaði og DLT PILOT
Óvissa hefur verið um hvort og að hvaða leyti sýndareignir falli undir gildandi löggjöf á fjármálamarkaði. Afstaða evrópskra eftirlitsstofnana á sviði fjármálamarkaða er sú að ákveðnar tegundir sýndareigna, einkum áðurnefndar verðbréfaeiningar, geti fallið undir gildandi löggjöf um fjármálamarkaði. Hins vegar geri regluverkið almennt ekki sérstaklega ráð fyrir sýndareignum. Oft væri annmörkum háð að beita fyrirliggjandi fjármálalöggjöf á slíkar eignir, sem gæti jafnframt verulega hamlað nýsköpun sem byggir á DLT.
Á þessum grunni hefur verið lögð fram tillaga að tilskipun sem gerir breytingar á skilgreiningu hugtaksins „fjármálagerningur“, sem þjónar lykilhlutverki við afmörkun á gildissviði ýmissar löggjafar á fjármálamarkaði, á þann veg að skýrt sé að fjármálagerningar sem notast við DLT falli þar undir. Aukinheldur hefur verið lögð fram tillaga að reglugerð um fyrirkomulag til reynslu fyrir innviði sem byggja á DLT (DLT PILOT). Í stuttu máli kemur þessi reglugerð á fót sérstökum innviðum fjármálamarkaða sem byggja á títtnefndri DLT tækni; annars vegar markaðstorgi fjármálagerninga (DLT MTF) og hins vegar verðbréfauppgjörskerfi (DLT SSS). Þær reglur sem gilda um slíka innviði eru þá nánar afmarkaðar í DLT PILOT. Stjórnvöldum aðildarríkja mun m.a. verða heimilt að veita þeim sem starfrækja slíka DLT innviði tilteknar undanþágur frá gildandi fjármálalöggjöf og með því styðja við þróun þeirra.
Reglugerð um markaði fyrir sýndareignir; MiCA
Að því er varðar sýndareignir sem ekki falla undir aðra löggjöf á fjármálamarkaði (þ.e.a.s. greiðslueiningar og þjónustueiningar) hefur framkvæmdastjórnin sett fram tillögu að reglugerð um markaði fyrir sýndareignir (Markets in Crypto-Assets Regulation, MiCA). Er henni ætlað að koma í stað þess regluverks sem ýmis aðildarríki kunna þegar að hafa komið á fót um slíkar sýndareignir. Byggir MiCA á grunni núgildandi fjármálalöggjafar EES en er þó ætlað að taka mið af þeim sérstöku sjónarmiðum sem um sýndareignir kunna að gilda.
Eru þar í fyrsta lagi lagðar til almennar reglur um útboð sýndareigna til almennings og töku þeirra til viðskipta á viðskiptavettvangi innan EES. Til þess mun m.a. þurfa að tilkynna um útgáfu sk. hvítbókar fyrir viðkomandi sýndareign (e. crypto-asset white paper) til lögbærs yfirvalds og birta hana opinberlega, þó með ákveðnum undantekningum. Þá eru einnig lagðar til almennar reglur um innherjasvik og markaðsmisnotkun með sýndareignir. Byggir þetta fyrirkomulag á núgildandi reglum um birtingu lýsingar við útboð og töku fjármálagerninga til viðskipta og markaðssvik.
Í öðru lagi er kveðið á um (strangari) reglur fyrir greiðslueiningar. Að óbreyttu mun t.a.m. þurfa starfsleyfi til útgáfu slíkra sýndareigna og samþykki lögbærra yfirvalda á hvítbókum vegna þeirra. Jafnframt munu útgefendur þeirra þurfa að uppfylla sérstakar kröfur um viðvarandi upplýsingagjöf og skipulagskröfur.
Í þriðja lagi eru gerðar enn ríkari kröfur til mikilvægra greiðslueininga. Eru þær reglur svar framkvæmdastjórnar ESB við þeim kerfislægu hættum sem kunna að stafa af sk. stöðugleikamyntum (e. stablecoins) fyrir fjármálakerfið í heild. Með nokkurri einföldun má lýsa stöðugleikamyntum sem greiðslueiningum sem tengdar eru við gengi annarra eigna eða gjaldmiðla. Þekktustu dæmin eru líklega Tether, sem tekur mið af gengi Bandaríkjadollars, og Diem (áður Libra), sem studd er af samskiptamiðlinum Facebook, sem áætlað er að verði tengd gengi mismunandi gjaldmiðla.
Í fjórða lagi er afmörkuð umgjörð um starfsemi fyrirtækja sem veita þjónustu tengda sýndareignum (e. crypto-assets service providers), s.s. fjárfestingarráðgjöf, stafræn veski og viðskiptavettvangar með sýndareignir. Munu slíkir aðilar m.a. þurfa að afla sér starfsleyfis frá lögbæru yfirvaldi.
Að lokum er rétt að geta þess að aðilum sem starfa á grundvelli þessa nýja regluverks verður heimilt að veita þjónustu með og framkvæma útboð sýndareigna hvar sem er innan EES, á grundvelli sk. Evrópupassa. Ætlunin er að auðvelda nýsköpunarfyrirtækjum á þessu sviði að starfa og afla sér fjármagns innan Evrópu.
Hvað svo?
Með þessum tillögum er gerð metnaðarfull atlaga að því að koma á fót heildstæðu regluverki fyrir sýndareignir innan EES. Í ljósi sögunnar er afar ólíklegt að þær fari óbreyttar í gegnum löggjafarferli ESB en gildissvið og efnistök MiCA hafa raunar þegar sætt gagnrýni. Þar sem framkvæmdastjórn ESB virðist leggja mikla áherslu á að komið sé á fót sameiginlegum reglum um þetta málefni innan EES má reikna með að reglur á þessu sviði muni ná fram að ganga. Áhugavert verður að fylgjast með hvernig þessum tillögum reiðir af.