Það er ástæða til þess, að sögn Óttars Pálssonar, lögmanns og meðeiganda hjá LOGOS, að endurskoða núverandi takmarkanir á kaupaukum fjármálafyrirtækja með það fyrir augum að færa gildissvið þeirra og efnisreglur nær því sem þekkist í löndunum í kringum okkur. Séríslenskar takmarkanir á kaupaukum skerða samkeppnishæfni, hækka föst laun bankastarfsmanna verulega og geta jafnvel stuðlað að óæskilegri ákvarðanafælni.
Þetta kom fram í máli Óttars á málstofu sem fór fram á Lagadeginum í síðustu viku þar sem rætt var um kauprétti og kaupauka starfsmanna fjármálafyrirtækja
„Þótt almenningur kunni að hafa sterkar skoðanir á bankabónusum og þeir séu þyrnir í augum einhverra af tilfinningalegum ástæðum er það út af fyrir sig ekki æskilegur útgangspunktur við reglusetningu,“ segir Óttar.
Í erindi sínu bendir Óttar á að lengst af hafi fyrirtæki haft frjálsar hendur um slíkar greiðslur að teknu tilliti til almennra ákvæða í lögum og reglum um stjórnhætti á hverju stað. Áföll á fjármálamarkaði árið 2008 mörkuðu síðan þáttaskil í umræðunni enda var víða litið svo á að rekja hefði mátt ýmis dæmi um óhóflega áhættutöku og skammsýni í rekstri fjármálafyrirtækja til fyrirheita og væntinga bankastarfsmanna um veglega kaupauka í lok árs.
Á vettvangi Evrópusambandsins voru takmarkanir fyrst samþykktar sem hluti af tilskipun (CRD III) sem tók gildi árið 2011. Við reglurnar var aukið og þær nánar útfærðar í nýrri tilskipun árið 2014 (CRD IV) sem síðast var breytt á árinu 2020.
Efnislega fela þær í sér kröfur um að fyrirheit um greiðslu kaupauka taki bæði mið af fjárhagslegum og ófjárhagslegum árangri í starfi til lengri tíma litið, taki mið af áhættu fyrirtækisins nú og síðar, að greiðslu kaupauka sé frestað að hluta, og að hluti kaupauki sé greiddur í hlutabréfatengdum gerningum. Hlutfallið milli fastra launa og kaupauka skal hæst nema 100 prósentum en aðildarríkjum veitt svigrúm til að hækka hlutfallið í 200 prósent hafi ákvörðun þar að lútandi verið tekin á vettvangi hluthafa fyrirtækisins.
Sérstakar reglur um takmarkanir á kaupaukum fjármálafyrirtækja voru fyrst teknar upp í íslenskan rétt árið 2010. Í bráðabirgðaákvæði við lög um fjármálafyrirtæki var mælt fyrir um tímabundið bann við gerð kaupaukasamninga við framkvæmdastjóra og lykilstarfsmenn færu heildarfjárhæð sem greidd væri samkvæmt slíkum samningum umfram 10 prósent af heildarlaunaútgjöldum fjármálafyrirtækisins á ársgrunni, eða umfram 25 prósent af heildarlaunum viðkomandi starfsmanns án kaupauka.
þótt hagkerfi okkar sé smátt í samanburðinum er ekki augljóst að stærðin að þessu leyti kalli á frekari hlutfallslegar takmarkanir en annars staðar gilda