Eigendur HFF-skuldabréfa ÍL-sjóðs samþykktu þann 10. apríl 2025 tillögur ríkisins um uppgjör á bréfunum. Tillögurnar voru mótaðar af viðræðunefnd fjármálaráðherra og ráðgjöfum lífeyrissjóða, sem voru LOGOS og Arctica Finance. Í tillögunum fólst að kröfur samkvæmt HFF-bréfum, sem metnar eru á 651 milljarð króna, verði efndar með því að ÍL-sjóður og íslenska ríkið afhendi til uppgjörs ný ríkisskuldabréf að andvirði 540 milljarða króna, önnur verðbréf í eigu ÍL-sjóðs að andvirði 38 milljarða, og 73 milljarða króna í reiðufé, þar af evrur að andvirði 55 milljarðar króna.
Verkefni LOGOS hófst strax í október 2022 þegar fjármála- og efnahagsráðuneytið gaf út skýrslu um stöðu ÍL-sjóðs. Að mati ráðuneytisins sýndi niðurstaða skýrslunnar að rök mæltu með því að hafist yrði handa við að leita leiða til að slíta ÍL-sjóði svo hægt yrði að ráðstafa eignum hans og gera upp skuldir. Hins vegar lá þá einnig strax fyrir að í þeirri fyrirætlan var að gera kröfur upp á grundvelli höfuðstóls skuldabréfanna og áfallinna vaxta af þeim, sem hefði falið í sér gríðarlegt tjón fyrir kröfuhafa. Við tók því greining LOGOS á réttarstöðunni, sem meðal annars sýndi fram á að í þeirri ráðagerð fælist eignarnám í bága við ákvæði stjórnarskrár. Ljóst varð þannig að ágreiningur væri milli íslenska ríkisins og kröfuhafa um réttarstöðuna.
Í febrúar 2024 komust hins vegar fjármála- og efnahagsráðherra, og fulltrúar 18 lífeyrissjóða sem voru umbjóðendur LOGOS, að samkomulagi að hefja viðræður um uppgjör á skuldabréfum sjóðsins. Markmið viðræðnanna var að ná samkomulagi sem fæli í sér að skuldabréfin yrðu gerð upp að fullu og skilyrði sköpuð fyrir slitum ÍL-sjóðs. Í mars 2025 höfðu viðræðunefnd fjármála- og efnahagsráðherra og ráðgjafar lífeyrissjóða saman mótað tillögur að slíku samkomulagi, sem svo var samþykkt af eigendum skuldabréfanna á fyrrnefndum fundi þann 10. apríl 2025.
LOGOS fagnar þessum árangri og því mikilvæga samstarfi sem leiddi til samþykkis uppgjörstillagnanna. Með þessum áfanga er stigið stórt skref í átt að farsælli lausn á flókinni stöðu og lagður grunnur að traustari fjármálamarkaði til framtíðar.
Af hálfu LOGOS leiddu verkefnið hæstaréttarlögmennirnir Óttar Pálsson og Hjördís Halldórsdóttir.