Erna Leifsdóttir, lögmaður og verkefnastjóri hjá LOGOS, hefur hlotið alþjóðlega vottun sem sérfræðingur í vörnum gegn peningaþvætti (Certified Anti-Money Laundering Specialist – CAMS) frá samtökunum ACAMS (Association of Certified Anti-Money Laundering Specialists).
CAMS-vottunin er leiðandi alþjóðleg staðfesting á sérhæfðri þekkingu í málaflokknum og er almennt viðurkennd sem gullstaðall á sviði reglufylgni og áhættustýringar í baráttunni gegn fjármálaglæpum. Vottunin veitir innsýn í greiningu og varnir gegn peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverka og öðrum tegundum ólögmætra fjármagnsflutninga.
Til þess að hljóta CAMS-vottun þurfa sérfræðingar að ljúka yfirgripsmiklu námskeiði sem nær yfir alþjóðleg lög og reglur, áhættumat, greiningu á grunsamlegum viðskiptum og innleiðingu verklagsreglna sem miða að því að koma í veg fyrir fjármálaglæpi. Erna lauk náminu og lokaprófi með góðum árangri í febrúar 2025.